Lögreglurannsókn á myndum af Gayet

Franska leikkonan Julie Gayet.
Franska leikkonan Julie Gayet. AFP

Saksóknarar í Frakklandi hyggjast hefja lögreglurannsókn á birtingu tímaritsins Closer á myndum af leikkonunni Julie Gayet, en hún telur að með myndbirtingunni hafi réttur hennar til einkalífs verið brotinn. Myndirnar tengdust umfjöllun blaðsins um samband Gayet við Francois Hollande, Frakklandsforseta.

Á myndunum sem Closer birti sést Gayet sitja undir stýri á bíl sínum, en samkvæmt frönskum lögum er einkabíll svokallað einkasvæði líkt og heimili og því ekki heimilt að mynda fólk þar án leyfis.

Fyrir nokkru höfðaði Gayet einkamál á hendur Closer fyrir að birta myndir af henni og Hollande, sem voru teknar á almenningssvæði fyrir framan íbúð þar sem þau hittust. Þar fer hún fram á samtals 54.000 evrur, um 8,5 milljónir íslenskra króna, í skaðabætur og lögfræðikostnað.

Síðan upp komst um ástarsamband hennar og forsetans hefur hún haft hægt um sig og vinir hennar hafa tjáð fjölmiðlum að hún hafi engan hug á að verða forsetafrú Frakklands, en Hollande sleit sambandi sínu við sambýliskonu sína Valerie Trierweiler eftir að upp komst um samband hans og Gayet.

Nýverið var Gayet tilnefnd til Cesar-kvikmyndaverðlaunanna, sem stundum eru kölluð frönsku Óskarsverðlaunin, fyrir kvikmyndahlutverk sitt sem ögrandi klæddur ráðgjafi ráðherra sem notar líkamlegt aðdráttarafl sitt til að fá sínu framgengt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert