„Það klikkaðasta sem ég hef séð á ævinni“

Að minnsta kosti einn er látinn eftir að 12 hæða íbúðahús hrundi að hluta í strandbænum Surfside í Miami í Flórída í nótt. 

„Þetta er það klikkaðasta sem ég hef séð á ævinni,“ segir sjónarvottur en myndskeið af upplifun hans má sjá í umfjöllun BBC

12 hæða íbúðahús hrundi að stórum hluta í Miami í …
12 hæða íbúðahús hrundi að stórum hluta í Miami í nótt. Björgunaraðgerðir standa enn yfir. AFP

Á myndskeiðinu hér að ofan sést hvernig stór hluti byggingarinnar er í rúst eftir atburði næturinnar. 130 íbúðir voru í húsinu, sem var byggt árið 1981, en óljóst er hversu margir eru búsettir þar og hversu margir voru í byggingunni þegar hluti hennar hrundi. Sumir íbúar gátu gengið niður stiga og komið sér í öruggt skjól en öðrum þurfti að bjarga af svölum. 

Fjölmennt lið viðbragðsaðila er enn að störfum og eru leitarhundar meðal annars notaðir við leitina sem enn hefur lítinn árangur borið. Tíu manns hafa fengið aðhlynningu á staðnum og tveir hafa verið fluttir á sjúkrahús.  

Lögregla og slökkvilið fara fyrir björgunaraðgerðum sem hafa staðið frá …
Lögregla og slökkvilið fara fyrir björgunaraðgerðum sem hafa staðið frá því klukkan tvö í nót að staðartíma þegar hluti hússins hrundi. AFP

Ekki liggur fyrir hvað olli hruninu. Bæjarstjóri Surfside, Charles Burkett, segir í samtali við NBC-fréttastofuna að húsið hafi fallið saman eins og pönnukaka og því eru aðstæður til leitar erfiðar. „Þetta lítur úr eins og sprengja hafi sprungið en við erum nokkuð viss um að svo hafi ekki verið.“

Ekki liggur fyrir hvað olli hruni hússins.
Ekki liggur fyrir hvað olli hruni hússins. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert