Stór áfangi á löngum ferli Birkis

Birkir Már Sævarsson í baráttu við Felix Örn Friðriksson, vinstri …
Birkir Már Sævarsson í baráttu við Felix Örn Friðriksson, vinstri bakvörð ÍBV, í leiknum á Hlíðarenda í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Birkir Már Sævarsson fyrrverandi landsliðsmaður í knattspyrnu hóf í kvöld sitt tuttugasta meistaraflokksár í fótboltanum með því að ná stórum áfanga á löngum og farsælum ferli.

Birkir Már var að vanda í byrjunarliði Valsmanna sem tóku á móti ÍBV í fyrstu umferð Bestu deildar karla á Hlíðarenda og það var hans 400. deildaleikur á ferlinum. Birkir gat fagnað 2:1  sigri í leikslok.

Af þessum 400 leikjum eru 148 á Íslandi, 168 í Noregi og 84 í Svíþjóð en Birkir lék sinn fyrsta deildaleik með Val gegn Þrótti í fjórðu umferð úrvalsdeildarinnar 2. júní árið 2003, þá 18 ára gamall.

Hann lék með Val til 2008, alls 56 úrvalsdeildarleiki og 11 leiki í 1. deild. Hann fór til Brann í Noregi síðsumars 2008 og lék þar í sex og hálft ár í norsku úrvalsdeildinni þar sem hann spilaði 168 leiki fyrir félagið. 

Síðustu þrjú árin í atvinnumennskunni lék Birkir síðan með Hammarby í sænsku úrvalsdeildinni og spilaði þar 84 leiki með Stokkhólmsliðinu.

Hann sneri þá aftur til Vals og er að hefja fimmta tímabilið eftir heimkomuna en síðustu fjögur ár hefur hann spilað 80 úrvalsdeildarleiki með Valsliðinu. 

Birkir hefur skorað 33 mörk í þessum 400 leikjum og þar af 11 fyrir Val undanfarin fjögur ár.

Birkir Már Sævarsson lék 103 A-landsleiki og tók m.a. þátt …
Birkir Már Sævarsson lék 103 A-landsleiki og tók m.a. þátt í sigrinum sæta gegn Englendingum á EM árið 2016. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Birkir lagði landsliðsskóna á hilluna í lok ársins 2021 eftir að hafa spilað 103 A-landsleiki en hann er einn þriggja íslenskra karla sem hafa náð að spila hundrað landsleiki og er þriðji leikjahæstur á eftir Birki Bjarnasyni og Rúnari Kristinssoni. Birkir var fastamaður í íslenska landsliðinu á báðum stórmótum þess, á EM í Frakklandi 2016 og HM í Rússlandi 2018.

Birkir, sem er 37 ára gamall, er 33. íslenski knattspyrnumaðurinn sem nær þeim stóra áfanga að leika 400 deildaleiki á ferlinum. Sex náðu honum á árinu 2021, þeir Ari Freyr Skúlason, Gylfi Þór Sigurðsson, Helgi Valur Daníelsson, Hjörtur Júlíus Hjartarson, Óskar Örn Hauksson og Emil Hallfreðsson. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert