Ætlar áfram að koma hvalbjór á markað

Umbúðir hvalbjósins.
Umbúðir hvalbjósins.

Fulltrúar heilbrigðiseftirlits Vesturlands afhentu í morgun forsvarsmönnum brugghússins Steðja formlegt erindi þess efnis að stoppa eigi framleiðsluferli á þorrabjór þess sem er kryddaður með hvalmjöli. Þetta segir Dagbjartur Arilíusson hjá Steðja. Greint var frá því í gær að eftirlitið myndi stoppa framleiðsluna þar sem hún uppfylli ekki skilyrði matvælalaga um að allt hráefni sem notað sé til matargerðar eigi að vera samkvæmt matarlöggjöfinni og frá viðurkenndum birgjum.

Dagbjartur segir bjórinn vera tilbúinn, en þetta mál snúist um það starfsleyfi sem Hvalur hf. hafi til þess að vinna hvalkjöt, en hvalmjölið sem notað er í bjórinn kemur þaðan. Ekki fari milli mála að fyrirtækið megi selja hvalkjöt, en deilt sé um hvort það nái til lýsis og hvalmjöls.

Sjálfur segir Dagbjartur að honum finnist þetta vera hæpnar forsendur sem eftirlitið byggi mál sitt á og bendir á að ef það nái fram að ganga hljóti það einnig að eiga við allar aðrar matvörur sem eru seldar úr dýra- og jurtaríkinu. T.a.m. sé Steðji með bjór í þróun sem kryddaður sé með þara. Það verkefni muni væntanlega ekki ganga upp miðað við þessa niðurstöðu eftirlitsins og það sama eigi mögulega við einhvern hluta matvælaframleiðslu hér á landi sem sé ekki 100% vottaður frá upphafi.

Aðeins eitt kíló af hvalmjöli er notað í hverja tvö þúsund lítra af bjór og segist Dagbjartur velta því fyrir sér af hverju eftirlitið fari af stað í þessu máli. Segir hann að það hljóti að vera einhver minnihlutahópur innan stjórnsýslunar sem hafi viljað stoppa þessa framleiðslu, en hann er staðfastur á að fá ákvörðuninni hnekkt á næstu dögum. Í heild er bruggunin fimm þúsund lítrar og því um að ræða 2,5 kíló af hvalmjöli.

Segir hann að bjórnum verði ekki hellt niður strax, enda sé hann nú þegar búinn að senda lögfræðingi sínum bréfið og ætla þeir að senda greinargerð til heilbrigðiseftirlitsins með athugasemdum. Dagbjartur segir að hann hafi fengið loforð um að málið fái fljóta afgreiðslu, enda átti bjórinn að koma í verslanir í lok mánaðarins. 

Frétt mbl.is: Hvalabjór settur á markað fyrir þorrann

Frétt mbl.is: Hvalabjór vekur athygli

Frétt mbl.is: Hvalabjór reitir útlendinga til reiði

Frétt mbl.is: Banna framleiðslu hvalabjórs

Nýi þorrabjór Steðja er búinn til úr hvalmjöli. Nú er …
Nýi þorrabjór Steðja er búinn til úr hvalmjöli. Nú er deilt um það hvort hann uppfylli skilyrði matvælalöggjafar.
mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK