„Martröðin varð að veruleika“

Úkraína | 24. febrúar 2023

„Martröðin varð að veruleika“

Alyona Ponomarenko, förðunarritstjóri VOGUE í Úkraínu, segir að stríðið hafi haft hörmulegar afleiðingar. Nóttina sem Rússar réðust inn í Úkraínu þvoði hún sér um hárið. Hún vildi ekki deyja með skítugt hár. Innrás Rússa hefur umturnað lífi hennar en hún sendi son til Frakklands þar sem hann býr ásamt foreldrum hennar. Hún og eiginmaður hennar eru hins vegar búsett í Kænugarði og ætla að berjast fyrir land og þjóð. Þau ætla ekki að gefast upp. 

„Martröðin varð að veruleika“

Úkraína | 24. febrúar 2023

Alyona Ponomarenko, förðunarritstjóri VOGUE í Úkraínu.
Alyona Ponomarenko, förðunarritstjóri VOGUE í Úkraínu.

Alyona Ponomarenko, förðunarritstjóri VOGUE í Úkraínu, segir að stríðið hafi haft hörmulegar afleiðingar. Nóttina sem Rússar réðust inn í Úkraínu þvoði hún sér um hárið. Hún vildi ekki deyja með skítugt hár. Innrás Rússa hefur umturnað lífi hennar en hún sendi son til Frakklands þar sem hann býr ásamt foreldrum hennar. Hún og eiginmaður hennar eru hins vegar búsett í Kænugarði og ætla að berjast fyrir land og þjóð. Þau ætla ekki að gefast upp. 

Alyona Ponomarenko, förðunarritstjóri VOGUE í Úkraínu, segir að stríðið hafi haft hörmulegar afleiðingar. Nóttina sem Rússar réðust inn í Úkraínu þvoði hún sér um hárið. Hún vildi ekki deyja með skítugt hár. Innrás Rússa hefur umturnað lífi hennar en hún sendi son til Frakklands þar sem hann býr ásamt foreldrum hennar. Hún og eiginmaður hennar eru hins vegar búsett í Kænugarði og ætla að berjast fyrir land og þjóð. Þau ætla ekki að gefast upp. 

Ég hitti Ponomarenko í París rétt fyrir jólin. Þar vorum við báðar að sinna störfum okkar. Hún sem fegurðarritstjóri VOGUE í Úkraínu og ég fyrir þennan miðil. Hún bar það ekki utan á sér að vera frá stríðshrjáðu landi og að hafa sjálf, á eigin holdi og blóði, upplifað þann hrylling sem stríð býður upp á. Hún sagði mér frá því að hún væri reyndar alin upp við stríðsótta en þrátt fyrir það bjóst hún aldrei við því að stríð yrði hennar veruleiki. Þegar hún vaknaði aðfaranótt 24. febrúar í fyrra reyndi hún að telja sjálfri sér trú um að einhver væri að sprengja flugelda. Þetta voru hins vegar ekki flugeldar því Rússarnir voru mættir í öllu sínu veldi með flugskeyti, skriðdreka og yfirgang. 

Áður en við ræðum um nóttina örlagaríku fyrir ári síðan spyr ég hana um upprunann. Ponomarenko er fædd í Rússlandi og bjó þar fyrstu árin en foreldrar hennar eru frá Úkraínu. Fjölskyldan talaði til dæmis saman á rússnesku. Það var ekki fyrr en fjölskyldan flutti í Kænugarð sem hún lærði úkraínsku almennilega en þar lærði hún líka ensku sem hefur komið sér vel. 

„Ég hef aldrei skilgreint mig út frá þjóðerni mínu. Núna er það hins vegar eitt það mikilvægasta sem skilgreinir mig. Ætli þetta sé ekki óttinn við dauðann. Rússland, sem er hryðjuverkaríki, vill eyða þjóð minni,“ segir Ponomarenko og bætir við: 

„Ég elska landið mitt og ég er stoltur og hugrakkur Úkraínumaður. Ég finn fyrir úkraínska DNA-inu mínu í hverju einasta skrefi og hverju einasta látbragði. Allt frá tungumálinu sem ég tala ofan í minnstu smáatriði eins og saumana á ekta hutzul-vesti sem ég keypti á Kosiv-markaði uppi í miðjum Karpatafjöllum,“ segir Ponomarenko. 

Þessi mynd var tekin af Olenu Kourilo í Kænugarði 24. …
Þessi mynd var tekin af Olenu Kourilo í Kænugarði 24. febrúar 2022 þegar hún var að koma af spítalanum eftir innráss Rússa í Úkraínu. Þessi mynd er lýsandi fyrir veruleika Ponomarenko. AFP/Aris Messins

Í dag býr hún sem fyrr segir í Kænugarði ásamt eiginmanni sínum. 16 ára sonur þeirra er hins vegar í Frakklandi. Hún segir að það sefi hana að vita af foreldrum sínum og syni í öruggum höndum en á sama tíma upplifir hún nístandi sársauka að vera aðskilin frá þeim.

„Það er ákveðinn léttir að mamma, pabbi og sonur minn séu í Frakklandi. Ég get ekki verið með þeim því ég þarf að gera gagn í heimalandi mínu. Ég vona að þau komi ekki aftur fyrr en við sigrum. Það er allt of óöruggt að vera hérna núna,“ segir Ponomarenko sem er altalandi á rússnesku eftir að hafa búið í Sovétríkjunum sem krakki. 

„Ég talaði rússnesku á hverjum degi þangað til á þessum degi fyrir ári síðan. Ég byrjaði að læra úkraínsku eftir að fjölskylda mín flutti til Kænugarðs. Nú þoli ég ekki rússnesku, get ekki hlustað á hana og get ekki lesið rússneskar bækur,“ segir Ponomarenko. 

Þessi mynd var tekin í Kænugarði í Úkraínu í gær. …
Þessi mynd var tekin í Kænugarði í Úkraínu í gær. Hún sýnir hvernig borgin er leikin eftir innrás Rússlands. AFP/Dimitar DILKOFF

Þegar ég spyr hana um æskuárin segist hún hafa haft það gott sem barn. Hún var dekruð og sýnd mikil hlýja. Hún sökkti sér ofan í ævintýraheima Astrid Lindgren og O.Genry. Hún lá þó ekki bara í bókum því hún fékk snemma áhuga á hinum forboðna fegrunarheimi. Þegar hún var lítil var ilmvatnsglas jafn dýrmætt og gimsteinar.

„Helsta sektarkennd bernsku minnar var þegar ég var að grafa í gegnum snyrtiskáp frænku minnar, sem var yfirmaður í stærstu snyritvöruverslun landsins. Þetta endaði þó ekki mjög vel. Ég missti flösku af Climat-ilmvatninu frá Lancôme sem gerði það að verkum að ilmvatnið helltist út um allt. Þegar ég var að alast upp í Sovétríkjunum var alvöru franskt ilmvatn hreinn fjársjóður. Jafnvel fyrir konur eins og frænku mína sem starfaði í snyrtivöruverslun. Það að hella niður ilmvatninu hennar var ígildi þess að brenna listaverkið af Monu Lisu til ösku. Ég skammast mín enn þá fyrir þetta,“ segir hún og hlær. 

Nærföt og stríð! 

Býst fólk einhvern tímann við því að það brjótist út stríð? Þegar Ponomarenko er spurð út í þetta segist hún vera alin upp við stríðsótta. Hún hafi hins vegar aldrei trúað því raunverulega að þetta myndi gerast. 

„Járntjaldið og allur áróðurinn í kringum það fékk litlu mig til þess að trúa því að óvinurinn væri alltaf tilbúinn til að ráðast inn. Eftir að ég varð fullorðin skildi ég að raunverulega ógnin voru Sovétríkin. Í janúar og febrúar 2022 hlustuðum við á öll varnaðarorðin sem komu frá Bandaríkjunum. Ég upplifði alls konar skelfingu og þráhyggju. Ég keypti mér til dæmis nærföt og silkivörur frá Sleeper. Ekkert okkar trúði því samt í raun og veru að innrás væri möguleg. En svo bara birtust skriðdrekar, þyrlur og sprengjur sem drápu fólk. Allt það sem maður hafði áður séð í stríðsmyndum var allt í einu orðið hluti af okkar lífi. Martröðin varð að veruleika,“ segir hún. 

Hér er Ponomarenko á góðgerðarsamkomu í París þar sem Alla …
Hér er Ponomarenko á góðgerðarsamkomu í París þar sem Alla Baranovska safnaði peningum fyrir her Úkraínu. Hún klæðist vyshyvanka sem er sérstök skyrta sem er ættuð úr heimalandi hennar. Ljósmynd/Gorbun

Nóttina fyrir innrásina sofnaði hún með símann sinn í höndunum eftir að hafa skrollað endalaust í gegnum fréttamiðla. Hún vaknaði með andfælum klukkan hálffimm um nóttina og það fyrsta sem hún gerði var að kíkja á fréttirnar. 

„Ég heyrði sprengjuhljóð en hugurinn hélt áfram að segja mér að þetta væri einhver vitleysa. Ég sagði við sjálfa mig að hafa engar áhyggjur. Þetta væri líklega bara sorpbíll eða sporvagn og svo væru sprengingarnar örugglega bara flugeldar. Spáðu í því. Flugeldar. Í alvörunni. Ég gat ekki ímyndað mér að evrópsk borg með milljónir íbúa gæti orðið fyrir árás. Og líka svona snemma morguns. Að ráðast inn í land á meðan saklaus börn sofa. Það er hræðilegt,“ segir hún. Þegar það lá ljóst fyrir að það væri enginn sorpbíll á ferð og enginn að sprengja flugelda greip óttinn hana. Í öllum glundroðanum sem hún upplifði ákvað hún að fara í sturtu og þvo á sér hárið. 

„Ekki spyrja mig um ástæðuna. Einhvern veginn fannst mér mikilvægt að deyja ekki með skítugt hár. Ég hef verið heltekin af þessu síðan og er alltaf að þvo á mér hárið,“ segir hún.

Eftir hárþvottinn og sturtuna vöktu þau hjónin son sinn, settu páfagaukinn í búrið sitt, pökkuðu niður skjölum, fartölvum og mat. Faðir hennar lá á spítala á þessum tíma. Þau lögðu af stað til að sækja föður hennar sem lá á sjúkrahúsi. Það gekk hins vegar ekki vel. 

„Borgin var stífluð af umferðarteppu. Ég vil ekki muna eftir andlitum fólksins sem ég mætti þessa nótt. Þetta var átakanlegt. Okkur tókst ekki að komast á sjúkrahúsið. Pabbi neitaði að taka legubíl og endaði á því að koma heim með almenningssamgöngum. Hann vildi taka bílinn sinn og fara til mömmu, sem var í felum í sveitahúsi fjölskyldu bróður míns. Pabba tókst þetta en við fjölskyldan flúðum til tengdaforeldra minna sem eru með aðsetur úti í sveit. Næstu þremur dögum eyddum við í felum í kjallara með eplum, gulrótum og krukkum af gerjuðum tómötum. Vinnufélagi minn og vinkona sem starfar hjá Slóvenska VOGUE, Cindy Kerberova, er mögulega manneskjan sem bjargaði lífi okkar. Hún krafðist þess að við færum á brott með son okkar, sem við og gerðum. Við fórum til Vestur-Úkraínu og rétt sluppum þangað,“ segir hún. 

Þessi mynd var líka tekin í gær.
Þessi mynd var líka tekin í gær. AFP/Ihor TKACHOV

Fjölskyldan kom sér fyrir í borginni Ivano-Frankivsk sem er í vesturhluta Úkraínu. 

„Við fengum að búa í íbúð vinar okkar. Ég þekkti þessa íbúð vel því við bjuggum þarna þegar ég var yngri. Það að hafa aðgengi að heitri sturtu, eldavél og rúmi var mjög gott,“ segir Ponomarenko. 

Hún segir að vinnufélagar hennar hafi hvatt hana til þess að flýja land en hún vildi það alls ekki. 

„Ég gat ekki yfirgefið landið mitt og manninn minn. Ég bauð mig fram til hjálparstarfa og skrifaði inni á milli. Ég byrjaði morgnana yfirleitt á því að skrifa en svo fór ég yfir á Lyceum eldhúsið þar sem ég skúraði gólf, eldaði mat fyrir hermenn okkar og gerði það sem þarf að gera. Á kvöldin hélt ég áfram að vinna. Þvoði fötin mín og þegar ég fór í rúmið á kvöldin var ég dauðþreytt. Ég var til dæmis í sömu hettupeysunni í þrjá mánuði en hún er með áletruninni „Ukrainian as a statement“.“

Það gerðist margt á meðan Ponomarenko dvaldi í vesturhluta landsins. 

„Ég hætti að nota snyrtivörur og mér leið eins og væri nakin. Ég hætti líka að nota hárblásara og skyndilega áttaði ég mig á því að heit sturta og þvegið hár eru bestu heilsulindarmeðferðirnar sem hægt er að hugsa sér. Að eiga hrein föt eru líka forréttindi. Eini ilmurinn sem ég bar á þessum tíma var ilmurinn úr þvottaefni og mýkingarefni. Svo byrjaði ég að borða brauð og hætti að drekka áfengi. Ég tengi áfengi við eitthvað hátíðlegt og það var engu að fagna á þessum tíma þannig að ég hætti að drekka.“

Eftir dvölina í vesturhluta landins snéri Ponomarenko aftur til Kænugarðs 31. október. 

„Síðustu átta mánuði hefur líf okkar verið pakkað í risastóran poka. Það er auðvelt að vorkenna sjálfum sér í þessum aðstæðum. Á sama tíma vorum við þakklát fyrir að vera á lífi því það sem er að gerast í Úkraínu er hræðilegt,“ segir Ponomarenko í samtali við Smartland. 

Á morgun birtist framhald af viðtalinu en þar ræðir Ponomarenko um það hvernig vinna hennar sem förðunarritstjóri snarbreyttist við innrás Rússa inn í Úkraínu og hvernig hún horfir á framtíðina. 

mbl.is