Ekki enn komist inn í Douma

Mynd sem tekin er í Douma í dag. Douma var …
Mynd sem tekin er í Douma í dag. Douma var í mörg ár undir yfirráðum uppreisnarhópa en þeir eru nú flúnir þaðan. AFP

Rússar og Sýrlandstjórn hafa enn ekki leyft eftirlitsmönnum stofnunar um bann við notkun efnavopna (OPCW) að komast inn í Douma  þar sem efnavopnaárás var gerð fyrir nokkrum dögum sem varð til þess að þrjú vestræn ríki tóku höndum saman í loftárásum í landinu.

Eftirlitsmennirnir eiga að afla gagna um árásina. Samkvæmt upplýsingum frá sendiráði Bretlands í Hollandi, þar sem höfuðstöðvar OPCW er að finna, hafa sérfræðingarnir hins vegar ekki enn fengið leyfi til að fara inn í borgina Douma. 

Í færslu á Twitter segir breska sendiráðið í Hollandi að forstjóri OPCW hafi gefið upplýsingar um sendiför sérfræðinganna á neyðarfundi í Haag í morgun. Hins vegar hafi Rússar og Sýrlandsstjórn ekki veitt þeim aðgang að vettvangi hinnar meintu árásar. 

Rússneska sendiráðið í Hollandi sagði í tilkynningu í morgun að það ætlaði sér ekki að skipta sér af vinnu OPCW í Sýrlandi. 

Rússar neita því að hafa átt við vettvang árásarinnar. Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, segir í viðtali að hann geti ábyrgst að Rússar hafi ekki átt við staðinn þar sem árásin var gerð.

Uppfært: Eftir að fréttir bárust af því að eftirlitsmennirnir fengju ekki leyfi Rússa og Sýrlandsstjórnar til að fara inn í Douma sendu stjórnvöld í Rússlandi frá sér yfirlýsingu þar sem þau segja ekkert hæft í slíku. Þau hafi ekki staðið í vegi fyrir eftirlitsmönnunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert