Fannst látinn í Istanbul

AFP

Breti sem kom að þjálfun og stofnun sýrlensku hjálparsamtakanna White Helmets, Hvítu hjálmanna, er látinn. Ekki hefur verið upplýst um hvernig andlát James Le Mesurier bar að en fréttir tyrkneskra fjölmiðla herma að hann hafi fundist látinn fyrir framan húsið sem hann átti heima í, í Istanbul, með áverka á fótum og höfði.

Í síðustu viku var Le Mesurier sakaður um að vera njósnari í færslu rússneska utanríkisráðuneytisins á Twitter. Þar kom fram að einn af stofnendum Hvítu hjálmanna, James Le Mesurier, væri fyrrverandi njósnari MI6 og hefði starfað bæði í ríkjum á Balkanskaganum og í Mið-Austurlöndum. Tengsl hans við hryðjuverkasamtök næðu allt aftur til þess er hann starfaði í Kosovo. 

AFP

Le Mesurier var áður foringi í breska hernum og stofnaði björgunarsveitina Mayday Rescue sem annaðist þjálfun félaga í White Helmets þegar björgunarsveitin hóf starfsemi árið 2013. 

Hvítu hjálmarnir eru þekktir fyrir sjálfboðaliðastarf sitt í Sýrlandi, leit og björgun fólks úr rústum húsa á átakasvæðum í landinu. Einkum þar sem stjórnarherinn hefur gert loftárásir á heimili fólks á þeim svæðum sem eru undir yfirráðum stjórnarandstöðunnar. 

Le Mesurier sagði í viðtali við Al Jazeera árið 2015 að þegar hann fór að þjálfa og styðja samtökin ásamt tyrkneskum sérfæðingum í björgun fólks úr náttúruhamförum hafi félagarnir verið um 20 talsins. White Helmets-samtökin stækkuðu hratt og er talið að þau hafi bjargað lífi tugþúsunda frá stofnun þeirra. Heimildarmynd um samtökin hlaut Óskarverðlaunin árið 2017.

AFP

Hersveitir sýrlenska hersins og þess rússneska hafa ítrekað beint spjótum sínum að samtökunum sem þær saka um að styðja hryðjuverkamenn í Sýrlandi. 

I
I AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert