Krónprinsinn hafi veitt samþykki fyrir morðinu

Samsett mynd af Jamal Khashoggi (til vinstri) og krónsprinsinum Mohammed …
Samsett mynd af Jamal Khashoggi (til vinstri) og krónsprinsinum Mohammed bin Salman. AFP

Fram kemur í bandarískri skýrslu að krónprins Sádi-Arabíu, Mohammed bin Salman, hafi veitt samþykki sitt fyrir morðinu á blaðamanninum Jamal Khashoggi, sem var búsettur í Bandaríkjunum og skrifaði fyrir The Washington Post.

Skýrslan er tveggja ára gömul en hefur núna verið birt af ríkisstjórn Joes Bidens, Bandaríkjaforseta.

Fram kemur að prinsinn „veitti samþykki sitt fyrir aðgerð í Istanbúl í Tyrklandi til að handsama eða drepa sádi-arabíska blaðamanninn Jamal Khashoggi“.

Mótmælendur fyrir utan sendiráð Sádi-Arabíu í Bandaríkjunum á síðasta ári.
Mótmælendur fyrir utan sendiráð Sádi-Arabíu í Bandaríkjunum á síðasta ári. AFP

Ógn við konungsveldið

„Frá árinu 2017 hefur krónprisinn haft algjöra stjórn á öryggismálum konungsveldisins og leynilegum aðgerðum þess. Því er mjög ólíklegt að embættismenn í Sádi-Arabíu hafi farið í slíka aðgerð án leyfis krónprinsins,“ sagði í skýrslunni.

Í henni eru nefndir til sögunnar fimmtán Sádi-Arabar sem fóru til Istanbúl og sagt að miklar líkur séu á því að þeir hafi átt aðild að morðinu. Fram kemur að óljóst sé hvort þeir hafi vitað að aðgerðin myndi enda með dauða Khashoggi.

„Krónprinsinn taldi Khashoggi vera ógn við konungsveldið og var afar fylgjandi því að beita ofbeldi, ef nauðsyn krefði, til að þagga niður í honum,“ segir í skýrslunni.

Khashoggi, sem gagnrýndi prinsinn í skrifum sínum í The Washington Post, var lokkaður inn í sendiráð Sádi-Arabíu í Istanbúl árið 2018, til að ljúka pappírsvinnu vegna brúðkaups.

Vinir Jamals Khashoggi halda á plakötum með myndum af honum …
Vinir Jamals Khashoggi halda á plakötum með myndum af honum fyrir utan sendiráð Sádi-Arabíu í Instanbúl í fyrra. AFP

Bútuðu niður líkið

Khashoggi, sem var 59 ára, fór í sjálfskipaða útlegð til Bandaríkjanna árið áður eftir að hafa lent upp á kant við krónprinsinn, sem þá var orðinn valdamesti maður Sádi-Arabíu.

Tyrkneskir embættismenn segja að Khashoggi hafi verið drepinn í sendiráðinu 2. október 2018 af 15 manna hópi frá Sádi-Arabíu sem kyrktu hann og bútuðu niður lík hans.

Uppfært kl. 19.17:

Bandaríkin hafa ákveðið að meina erlendum ríkisborgurum sem beita hótunum gegn andmælendum sínum inngöngu í landið. Bannið nær þegar í stað yfir 76 Sádi-Araba vegna morðsins á Khashoggi.

Anthony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, greindi frá þessu.

„Við höfum gert það algjörlega ljóst að hótunum eða árásum Sádi-Arabíu gegn aðgerðasinnum, andmælendum og blaðamönnum verður að ljúka. Þær verða ekki liðnar í Bandaríkjunum,“ sagði hann. 

mbl.is