Tilefni til „hóflegrar bjartsýni“

Vladimír Pútín, forseti Rússlands, og Olaf Scholz Þýskalandskanslari sátu við …
Vladimír Pútín, forseti Rússlands, og Olaf Scholz Þýskalandskanslari sátu við langborð í Kreml og ræddu ástandið í Úkraínu. AFP

Vonir um að ekki yrði af innrás Rússa í Úkraínu glæddust nokkuð í gær eftir að Rússar tilkynntu að þeir væru að senda sumar af hersveitum sínum heim frá landamærunum að Úkraínu, þar sem þær hefðu lokið við heræfingar sínar.

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, sagði að yfirlýsingin gæfi tilefni til „hóflegrar bjartsýni“, en varaði við því að bandalagið hefði ekki séð nein merki um að Rússar hefðu dregið úr herstyrk sínum á landamærunum.

Yfirlýsingu Rússa fylgdi myndband sem sýndi rússneska skriðdreka að fara á lestarvagna til brottflutnings, en ekki var ljóst af henni hversu margar hersveitir væri um að ræða eða hvaða áhrif það hefði á stöðuna við landamærin. Þá tók rússneska varnarmálaráðuneytið fram að heræfingar þeirra væru enn í gangi, þar á meðal í Hvíta-Rússlandi og í Svartahafi.

Maria Zakharova, talsmaður rússneska utanríkisráðuneytisins, sagði á samfélagsmiðlum að yfirlýsing gærdagsins sýndi að það væru vesturveldin sem hefðu ýtt undir ástandið. „15. febrúar 2022 verður minnst sem dagsins þar sem stríðsáróður Vesturlanda klúðraðist. Þau voru niðurlægð og eyðilögð án þess að einu skoti væri hleypt af,“ sagði Zakharova.

Dmytro Kuleba, utanríkisráðherra Úkraínu, sagði að svo virtist sem tilraunir til fælingar væru að virka, en að enn þyrfti að sjá til hvort um raunverulegar aðgerðir væri að ræða. „Rússland sendir frá sér alls kyns yfirlýsingar um ýmsa hluti, þannig að við höfum reglu: ekki trúa því sem þú heyrir, heldur því sem þú sérð. Þegar við sjáum brottflutning, þá trúum við að verið sé að draga úr spennunni,“ sagði Kuleba.

Pútín reiðubúinn til viðræðna

Olaf Scholz Þýskalandskanslari hélt í gær til Moskvu til fundar við Vladimír Pútín Rússlandsforseta til að ræða ástandið og leita leiða til þess að koma í veg fyrir innrás.

Pútín sagði eftir fundinn að hann væri reiðubúinn til frekari viðræðna við Vesturlönd um ástandið, en sagði að vesturveldin hefðu ekki sett fram neinar raunhæfar tillögur á móti kröfum Rússa um víðtækar breytingar á öryggismálum Evrópu. „Viljum við stríð? Auðvitað ekki. Þess vegna höfum við sett fram tillögur um samningaviðræður,“ sagði Pútín á fundinum.

Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert