Uppsögn bankaviðskipta af pólitískum ástæðum

Nigel Farage var sagt upp bankaviðskiptum vegna pólitískra skoðana.
Nigel Farage var sagt upp bankaviðskiptum vegna pólitískra skoðana. AFP

Nigel Farage, fyrrum formaður stjórnmálaflokksins Ukip, var sagt upp viðskiptum við Coutts bankann í Lundúnum, án nokkurra frekari skýringa.

Brátt láku út upplýsingar um að honum hafi verið sagt upp vegna þess að innistæður hans og umsvif væru ekki nægar til að geta verið í viðskiptum við bankann. Bæði BBC og Financial Times fluttu fréttir af því.

Coutts er ekki banki af verri endanum, en meðal viðskiptavina teljast breska konungsfjölskyldan.

Samræmist ekki gildum bankans

Bankinn fullvissaði Farage um að uppsögn viðskipta væri ekki af pólitískum toga. Fjármálastofnunum er heimilt að hafna viðskiptum þeirra sem geta verið áhættuviðskiptavinir af pólitískum ástæðum, og eru þá merktir sem slíkir.

Farage hefur nú undir höndum gögn úr bankanum þar sem fram kemur að honum hafi verið sagt upp viðskiptum þar sem málflutningur hans samræmist ekki gildum bankans.

Bankinn fylgdist með atferli Farage um nokkurn tíma og tíndi margt til sem þeim þar líkaði illa við. Þar má nefna afstöðu hans til útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu, afstaða hans til samkynhneigðra og vinátta hans við Donald Trump.

Líkist kínversku þjóðskipulagi

Hann hefur gefið plagginu einkunnina „Skýrsla í ætt við Stasi“, og að í henni sé minnst á Brexit alls 86 sinnum, sem hann telur segja allt sem segja þurfi. Farage telur því sannað að upphaflega skýringin um að viðskipti hans næðu ekki lágmarki bankans, væru ósannar. Hann segir ástæðuna af pólitískum rótum.

Hann hefur jafnframt óskað eftir afsökunarbeiðni frá BBC fyrir að hafa flutt ranga frétt um málið.

Farage segir: „Þetta mál snýst ekki bara um mig. Þú gætir verið næstur...ef ekki er brugðist við þá förum við hægt og rólega inn í félagslegt skipulag líkt og ríkir í Kína, þar sem bara þeir sem hafa „réttar“ skoðanir geta tekið fullan þátt í samfélaginu.“

Eftir að hafa verið sagt upp viðskiptum hjá Coutts, hefur Farage gengið illa að komast að hjá öðrum banka. Honum hefur alls verið neitað tíu sinnum um viðskipti hjá öðrum bönkum í kjölfarið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert