Dóttir Stalíns látin

Svetlana á blaðamannafundi eftir að hún flúði til Bandaríkjanna.
Svetlana á blaðamannafundi eftir að hún flúði til Bandaríkjanna.

Svetlana Allilujeva, dóttir Jósefs Stalíns, fyrrverandi einræðisherra Sovétríkjanna, lést í Bandaríkjunum í síðustu viku, 85 ára að aldri. Svetlana flýði til Bandaríkjanna árið 1967 og þótti það talsverður álitshnekkir fyrir þáverandi Sovétleiðtoga.

Svetlana, sem tók sér nafnið Lana Peters þegar hún gifti sig í Bandaríkjunum, lést af völdum ristilkrabbameins 22. nóvember í Wisconsin þar sem hún bjó eftir að hún flúði frá Sovétríkjunum. 

Alþjóðlegt uppnám varð árið 1966 þegar Svetlana flúði frá Sovétríkjunum en hún sagði að helsta ástæðan væri slæm meðferð, sem eiginmaður hennar, Brijesh Singh, hlaut í Sovétríkjunum. Tvö börn hennar urðu eftir, Josef, sem lést í Moskvu árið 2008, og Yekaterina, sem er eldfjallafræðingur í Rússlandi.

Svetlana fór til Indlands árið 1966 með ösku eiginmanns síns, sem var indverskur ríkisborgari. Hún sagðist ætla að snúa aftur en þess í stað fór hún í bandaríska sendiráðið í Nýju-Delhí og bað um hæli. Hún dvaldi skamma hríð í Sviss en flaug síðan til Bandaríkjanna. árið 1967. 

Hún flutti með sér endurminningaþætti, sem hún skrifaði árið 1963 um uppvaxtarárin í Rússlandi. Bókin, sem nefndist Tuttugu bréf til vinar, var gefin út nokkrum mánuðum eftir að Svetlana kom til Bandaríkjanna og varð metsölubók. Í bókinni fjallaði Svetlana um föður sinn, sem lést árið 1953 eftir að hafa stýrt Sovétríkjunum með harðri hendi í 29 ár. Sagði Svetlana, að Stalín hefði verið fjarlægur og þjáðst af ofsóknarbrjálæði.

Svetlana skrifaði þrjár bækur til viðbótar, þar á meðal sjálfsævisögu sem gefin var út árið 1969.

Alexei Kosygin, þáverandi forsætisráðherra Sovétríkjanna, fordæmdi Svetlönu fyrir flóttann og sagði hana sjúka og siðferðilega óstöðuga. Hún sagði síðar, að hún hefði sjálf aldrei almennilega gert upp við tilfinningar sínar. 

Svetlana var eina dóttir Stalíns en hún átti tvo bræður, Vasilí og Jakob. Vasilí lést af völdum áfengissýki fertugur að aldri en nasistar handtóku Jakob árið 1941 og hann lést í fangabúðum.

Barnfóstra ól Svetlönu upp en móðir hennar lést árið 1932. Hún útskrifaðist úr Moskvuháskóla árið 1949 og starfaði sem kennari og túlkur. Hún giftist fjórum sinnum en síðasti eiginmaður hennar var Bandaríkjamaðurinn William Wesley Peters. Þau eignuðust eina dóttur, Olgu, en skildu árið 1973. Olga gengur nú undir listamannsnafninu Chrese Evans.

Eftir að hafa búið í Bretlandi í tvö ár sneri Svetlana aftur til Sovétríkjanna árið 1984 ásamt Olgu. Sagðist hún vilja taka upp samband við börn sín að nýju. Hún fékk sovéskan ríkisborgararétt og lýsti því opinberlega yfir, að hún hefði aldrei notið frelsis í Bandaríkjunum. En rúmu ári síðar óskaði hún eftir leyfi til að fara úr landi eftir að hafa lent í deilum við ættingja sína. Hún hélt aftur til Bandaríkjanna og hét því að fara aldrei aftur til Rússlands.

mbl.is

Erlent — Fleiri fréttir

Í gær

Mánudaginn 20. maí

Sunnudaginn 19. maí