Sex fengu heiðursnafnbót

Sex heiðursnafnbætur voru veittar á Háskólahátíð í gær.

Gísli Hannes Guðjónsson, prófessor í réttarsálfræði við Institute of Psychiatry, geðlækningastofnun Lundúnaháskóla, fékk heiðursdoktorsnafnbót í læknadeild fyrir störf sín á sviði réttarsálfræði, afbrotafræða og réttargeðlæknisfræði.

Karl Tryggvason, prófessor í læknisfræðilegri lífefnafræði við Karolinska Institutet í Stokkhólmi, fékk heiðursdoktorsnafnbót, sömuleiðis í læknadeild, fyrir störf sín innan læknisfræði, sameindalíffræði og lífefnafræði.

Árni Vilhjálmsson cand. oecon. fékk heiðursnafnbót í viðskipta- og hagfræðideild, en hann var prófessor í viðskiptadeild HÍ til ársins 1998 og starfaði m.a. áður hjá Alþjóðabankanum.

Jonna Louis-Jensen, fékk heiðursnafnbót í heimspekideild, en hún hefur starfað á Árnastofnun í Kaupmannahöfn frá árinu 1965 og verið prófessor í íslenskum bókmenntum og íslensku máli í þrjá áratugi við Hafnarháskóla.

Preben Meulengracht Sørensen, prófessor í norrænum bókmenntum við Árósaháskóla, var sömuleiðis sæmdur heiðursnafnbót í heimspekideild. Hann hefur gefið út fjölda bóka og ritgerða um íslenskar fornbókmenntir, samfélag og trúarbrögð í bókum og fræðitímaritum.

Pétur M. Jónasson, prófessor í vatnalíffræði, fékk heiðursnafnbót í raunvísindadeild. Hann var prófessor í vatnalíffræði og forstöðumaður Vatnalíffræðistofnunar HÍ þar til hann varð sjötugur árið 1990. Hann starfar þar enn við rannsóknir og ritstjórn bóka.

Starfsmenn HÍ fengu viðurkenningu fyrir lofsvert framlag í starfi

Sex starfsmenn Háskóla Íslands fengu viðurkenningu fyrir lofsamlegan árangur í starfi.

Sigurður Ingvarsson

, prófessor í læknadeild og nýráðinn forstöðumaður tilraunastöðvar Háskóla Íslands í meinafræðum á Keldum. Hann þykir afburða vísindamaður með yfirgripsmikla þekkingu á frumvísindum, frum- og sameindalíffræði.

Gísli Pálsson, prófessor í félagsvísindadeild, fékk einnig viðurkenningu fyrir lofsvert framlag til rannsókna. Viðamesta framlag hans til rannsókna er á sviði mannfræði sjávarútvegs.

Ólöf Ásta Ólafsdóttir, lektor í hjúkrunarfræði og námsstjóri ljósmóðurnáms, fékk viðurkenningu fyrir lofsvert framlag til kennslu. Þykir hún hafa af miklu kappi og með góðum árangri náð að vinna menntun í ljósmóðurfræðum sess innan Háskólans.

Rannveig Traustadóttir, dósent í félagsvísindadeild, fékk viðurkenningu fyrir lofsvert framlag til kennslu. Hún hefur fengið góða viðurkenningu frá nemendum og þótt sýna góða viðleitni til fjölbreytilegra kennsluhátta og verið öflug við uppbyggingu nýrra námsleiða í deildinni.

Valdimar Örnólfsson, fimleikastjóri HÍ, fékk viðurkenningu fyrir lofsvert framlag til íþróttamála Háskólans. Hann þykir hafa stóreflt íþróttaiðkun og líkamsrækt meðal stúdenta og starfsmanna skólans í keppni og í leik.

Sigurður P. Gíslason, fékk viðurkenningu fyrir lofsvert framlag til sjóða Háskólans. Hann þykir hafa ávaxtað sjóði skólans vel og tryggt með virku eftirliti að þau gjöld sem sjóðunum ber hafa skilað sér. Einnig hafi hann sýnt frumkvæði í nýjum tekjuöflunarleiðum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert