Magnús Ver fær 600.000 en ekki 10 milljónir

Magnús Ver Magnússon.
Magnús Ver Magnússon. mbl.is/Friðrik Tryggvason

Magnús Ver Magnússon, fyrrverandi handhafi titilsins sterkasti maður heims, fær 600 þúsund krónur í miskabætur frá ríkinu vegna ólögmætra þvingunarráðstafana við rannsókn lögreglu á meintri aðild Magnúsar að stórfelldum fíkniefnainnflutningi. Þetta er niðurstaða Hæstaréttar og var þar með dómur héraðsdóms staðfestur í málinu. Magnús hafði farið fram á 10 milljónir í skaða- og miskabætur.

Frétt mbl.is: Fer fram á 10 milljónir í Hæstarétti

Fylgst var með Magnúsi með ýms­um hætti meðan rann­sókn­in stóð yfir, meðal ann­ars var sími hans hleraður og sett­ur var eft­ir­far­ar- og hlust­un­ar­búnaður í bif­reið hans. Seinna var rannsóknin á Magnúsi látin niður falla og var honum tilkynnt um eftirlitið.

Ríkið viðurkenndi bótaskyldu í málinu en taldi 10 milljónir of háa upphæð. Taldi Magnús aftur á móti að notkun þving­unar­úr­ræða lög­regl­unn­ar hefði verið beitt í and­stöðu við lög og að upp­lýs­ing­ar sem urðu til þess að tengja Magnús fyrst við málið hafi verið óáreiðan­leg­ar. Þá hafi rann­sókn­ar­tíma­bilið verið óeðlilega langt og bryti á friðhelgi einka­lífs Magnús­ar og fjöl­miðlaum­fjöll­un um málið hafi skaðað Magnús.

Lögmaður ríkisins taldi lengd rannsóknarinnar aftur á móti ekki óeðlilega enda væru stór fíkniefnamál umfangsmikil og tækju jafnvel ár í skipulagningu.

Magnúsi var dæmd gjafsókn í málinu, bæði vegna dómskostnaðar og málflutningsþóknunar lögmanns hans upp á hálfa milljón.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert