Umhverfið við vegina fyrirgefi mistök

Við Stóru-Giljá. Hér væri slæmt ef ökutæki sem kæmi að …
Við Stóru-Giljá. Hér væri slæmt ef ökutæki sem kæmi að norðan færi út af vegi til vinstri. Ljósmyndynd/Ja.is

Vegagerðin vinnur þessa dagana að því að bæta umferðaröryggi á nokkrum vegaköflum fyrir norðan, þar á meðal við bæina Stóru-Giljá og Öxl í Austur-Húnavatnssýslu þar sem nokkuð hefur verið um slys að undanförnu.

Alvarlegt bílslys varð við Stóru-Giljá í gær og var kona flutt á Landspítalann með sjúkraflugi eftir að hafa velt bifreið sinni. Varðstjóri hjá lögreglunni á Blönduósi segist ekki hafa upplýsingar um líðan konunnar. Aðstæður á veginum voru góðar og ekki var um hraðakstur að ræða, segir hann og bætir við að rætt hafi verið við eitt vitni.

Minnka líkurnar á bílveltu 

Margrét Silja Þorkelsdóttir, deildarstjóri tæknideildar á norðursvæði Vegagerðarinnar, segir að aðgerðir til að bæta öryggi á svæðinu hafi byrjað í síðustu viku. Ráðist verður í framkvæmdir á nokkrum köflum og eru aðgerðirnar við Stóru-Giljá hluti af þeim pakka. Þær eiga að klárast síðar í þessum mánuði.

„Þetta er fyrst og fremst til að bæta öryggi svæðis umhverfis veginn ef fólk lendir í útafakstri, til að minnka líkurnar á að það velti bílnum,“ útskýrir Margrét Silja. Fyrir vikið minnki líkurnar á alvarlegum meiðslum fólks.

Hún segir vegtengingar við aðalveginn vera gamlar. Til stendur að jafna fláann við gömlu vegina með jarðvegsframkvæmdum svo að ekki myndist stökkpallur eða þá eins konar veggur ef bílar fara út af. Vegagerðin hefur farið í sams konar verkefni síðustu ár.

Skammt frá bænum Öxl, þar sem rúta valt af veginum í janúar síðastliðnum, stendur til að lengja vegrið og mýkja fláa á vegtengingunum.

Dæmi um stökkpall

Kafli úr skýrslu rannsóknarnefndar samgönguslysa vegna slyss sem varð á Ólafsfjarðarvegi árið 2018 þegar strætisvagn fór út af veginum. Þarna myndaði heimreið eins konar stökkpall fyrir vagninn. Ökumaður rútunnar lést af sárum sínum: 

Lúmskt hættulegir veggir

„Við viljum gera umhverfið þannig að það fyrirgefi mistök,“ segir Auður Þóra Árnadóttir, forstöðumaður umferðardeildar Vegagerðarinnar, spurð út í framkvæmdir stofnunarinnar.

Hún segir „veggina“, sem myndast við þvervegina vera lúmskt hættulega. „Maður er aldrei að spá í þetta þegar maður er að keyra á aðalveginum, þetta er svo lúmskt,“ segir hún og bætir við að það skipti miklu máli fyrir umferðaröryggi að ráðast í þessar framkvæmdir, sem séu tiltölulega ódýrar. 

Á meðal annarra verkefna Vegagerðarinnar til að bæta umferðaröryggi er að lengja ræsi sem liggja í gegnum vegi. Þegar ræsið er of stutt myndast dæld í vegkantinn og þá getur farið illa ef bíll fer út af veginum. „Mjög stór hluti af umferðaröryggisaðgerðum á hverju ári snýst um að laga kverkar og lengja ræsi,“ segir Auður Þóra.

Sömuleiðis er reynt að auka öryggi þar sem vatn er uppi við veg, svo að minni líkur verði á því að bílar sem fara út af lendi í vatninu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert