Tveimur sleppt úr haldi í hnífsstungumáli

Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn miðlægrar rannsóknardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn miðlægrar rannsóknardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tveimur mönnum af þeim fjórum sem voru handteknir í vegna hnífa­árás­ar í Grafarholti í nótt hefur verið sleppt úr haldi lögreglu. Litlar líkur eru á því að krafa um áframhaldandi varðhald verði lögð fram. Því er sennilegt að mennirnir verði allir látnir lausir.

Þetta segir Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn miðlægrar rannsóknardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is.

„Það voru fjórir handteknir í morgun en það hefur alla veganna tveimur verið sleppt,“ segir Grímur.

Býst ekki við varðhaldsúrskurði í kvöld

Lögregla hefur heimild til þess að hafa mennina í handjárnum í 24 klukkustundir áður en leggja þarf fram kröfu fyrir dómara um áframhaldandi gæsluvarðhald. Grímur segist ekki eiga von á því að farið verði fram á áframhaldandi varðhald í kvöld.

Því sé líklegt að mönnunum verði sleppt.

„Ég á von á því að þeim [sem enn eru í varðhaldi] verði sleppt en það liggur bara ekki fyrir nein ákvörðun um það,“ segir hann.

Gæti tengst skotárás í Úlfarsárdal og stunguárás á Litla-Hrauni

Lögregla rannsakar nú hvort – og þá hvernig – árásin tengist hnífstungu­árás í fang­els­inu á Litla-Hrauni í gær og skotárás­inni í Úlfarsár­dal í síðasta mánuði, en tveir eru nú í gæsluvarðhaldi í tengslum við skotárásina.

Grímur segir að málin snúist um „erjur á milli einstaklinga sem tilheyra einhverjum hópum“. en bendir á að almenningi stafi ekki hætta á þessum erjum.

„Við teljum að það sé lágmarkshætta fyrir almenning, en við höfum samt bent á það að erjurnar hafa leitt til þess að saklaust fólk hafi orðið fyrir barðinu á því,“ segir hann og á þar við um skot sem hafnaði í rúðu einnar fjölskyldu þegar skotárás varð í Úlfarsárdal.

Grímur á aftur á móti ekki von á því að ofbeldið komi til með að beinast að almennum borgurum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert