„Þetta verður ekki endalaust“

Ármann Höskuldsson, eldfjallafræðingur við Háskóla Íslands.
Ármann Höskuldsson, eldfjallafræðingur við Háskóla Íslands.

Ármann Höskuldsson eldfjallafræðingur segir vísbendingar benda til þess að umbrotin við Grindavík séu að færa sig í átt að Eldvörpum og gætu náð alla leið að Reykjanestá.

Rannsóknareining Háskóla Íslands í eldfjallafræði og náttúruvá varpaði í gær fram þeirri spá að eldsumbrot á Sundhnúkareininni gætu tekið enda innan tveggja mánaða. Ábyrgðarmenn hópsins eru auk Ármanns, Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur, Ingibjörg Jónsdóttir landfræðingur og jarðvísindamaðurinn William M. Moreland.

Haraldur Sigurðsson jarðfræðingur og Grímur Björnsson jarðeðlisfræðingur spáðu á fimmtudaginn því að umbrotum lyki síðsumars.

Veðurstofan áréttaði aftur á móti í gær að eng­in skýr merki væru um að jarðhrær­ing­um á Reykja­nesskaga og við Grinda­vík lyki á næst­unni.

Gígaröðin í Eldvörpum.
Gígaröðin í Eldvörpum. mbl.is/Sigurður Bogi

Veðurstofan mótmæli ekki spánni

„Þeir eru bara að reyna að horfa lengra fram í tímann,“ segir Ármann í samtali við mbl.is, spurður út í mismunandi spár sérfræðinga.

„Veðurstofan er svo sem ekkert að mótmæla þessu. Þeir tala um að það séu engin merki um að þessu sé að ljúka. Það fer náttúrulega allt eftir því hversu langt fram í tímann þetta er. Ef þú horfir 20 ár fram í tímann er mjög líklegt að þessu ljúki,“ bætir hann við.

„Menn eru bara að rýna í gögnin og reyna að sjá þar út eins vel og hægt er.“

Jarðhræringarnar á leiðinni út í Eldvörp

„Það kemur að því að það hættir að flæða þarna inn. Þetta verður ekki endalaust,“ segir Ármann enn fremur, en hann telur líklegast að umbrotasvæðið færist með tímanum í suðvestur.

„Ég er þeirrar skoðunar að þetta sé á leiðinni út í Eldvörp og þá lýkur þessu á Sundhnúkasprungunni. Það er bara spurning hvenær þetta nær að opna sig úti í Eldvörpum,“ segir hann en forðast að fullyrða um hvenær jarðhræringarnar myndu hafa fært sig í þá átt. Hann svarar þó aðspurður að það gæti gerst fyrir lok árs.

Eldvörp sjást hér vestan megin á kortinu, ásamt hrauni sem …
Eldvörp sjást hér vestan megin á kortinu, ásamt hrauni sem kennt er við þau. Kort/map.is

Ármann bendir þá á að merki séu þegar farin að sjást sem benda til þess að umbrotasvæðið sé að færast til Eldvarpa. Ein vísbending er að sprungur við Brimketil séu teknar að gliðna.

„Það er eðli þessa gliðnunarkerfis sem þarna er, það fer frá Sundhnúkum út í Eldvörp og síðan út á Reykjanestá. Það á eftir að gjósa á öllum þessum stöðum. Það er ekki þar með sagt að því sé lokið þessu ferli í gliðnunarkerfinu sem er þarna, þó það sé kannski farið að síga á seinni hlutann við Sundhnúka.“

Einhverjar breytingar orðið í rótum lands

Jarðvísindamenn hafa verið á tánum síðustu tvær vikur, eftir að kvikuinnskot varð á Sundhnúkagígaröðinni laugardaginn 2. mars, og bjuggust margir við því að sjá eldsumbrot stuttu síðar, en svo fór ekki. Síðan þá hef­ur kviku­magn und­ir Svartsengi haldið áfram að aukast sem gæti endað með nýju kviku­hlaupi og jafn­vel eld­gosi.

Ármann segir að það aftur á móti merki um einhverjar breytingar að ekki hefur dregið til tíðinda á þessum tíma.

„Væntanlega eru einhverjar breytingar. Það getur ekki gengið að þetta sé stöðugt skjótandi upp. Þetta þýðir væntanlega að það eru einhverjar breytingar í farvatninu,“ útskýrir eldfjallafræðingurinn. „Eins og að þetta fari út í Eldvörp.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert