Oft þurft að gefa afslátt til að halda friðinn

Hrefna Óskarsdóttir.
Hrefna Óskarsdóttir. mbl.is/Golli

„Þegar ég bjó á Akureyri og fór með ungann minn fyrsta daginn á leikskóla, ákvað ég að reyna að fara í kúlið og verða þessi upplýsta, meðvitaða móðir sem mér hefur svo sjaldan tekist að vera og spurði um þær stefnur sem leikskólinn aðhylltist. Með dass af umburðarlyndi og þolinmæði svaraði deildarstjórinn mér því að þau væru eiginlega hrifnust af skynsemisstefnunni - að taka það besta, skynsamasta og hagnýtasta héðan og þaðan og sú stefna væri stöðugt í mótun þegar eitthvað sniðugra og skynsamara kæmi á borð til þeirra,“ segir Hrefna Óskarsdóttir í sínum nýjasta pistli:

Þvílíkir gargandi snillingar sem þessir Akureyringar eru!

Eftir þetta hef ég myndað mér margar slíkar skynsemistefnur, í trúarmálum, varðandi uppeldisaðferðir og lífsskoðanir mínar um sálarlíf, hausarusl og tilfinningadrasl. Ég hef sterkar skoðanir á ýmsu, eins og á yfirstandandi verkfalli heilbrigðisstarfsfólks og lögleiðingu fíkniefna en hins vegar skortir mig stundum löngun til að hafa skoðun á minna spennandi hlutum, eins og hvort og hvenær það sé hagstæðast sé að taka verðtryggð lán, hvort við eigum að vera í ESB eða hvort yfirstandi árstíð falli frekar undir það að vera haust eða vetur.

Ég á fullt af allskonar skoðunum, bæði skynsamlegum og gáfulegum en líka kjánalegum og stundum barnalegum. Allar byggjast þær samt á einhverju sem mér var kennt í uppeldinu, á lífsreynslu minni eða annarra - og líka þeirri ólukkans leti minni að apa frekar upp óupplýstar skoðanir annarra heldur en að hafa fyrir því að mynda mér mínar eigin.

En jafnvel þó ég vandi mig ofsalega vel við að mynda mér skoðun og reyni að byggja hana á vel upplýstum hugmyndum snillinga, vísindalegum rannsóknum og reynslu þúsunda einstaklinga, þá mun ég sjálfsagt seint ná að finna  „hina einu réttu skoðun“. Þegar skoðun er orðin óvéfengjaleg, eitthvað sem engin efast um og allir eru sammála um, þá er hún væntanlega hætt að vera skoðun og er orðin að staðreynd (....sem verður líklega aldrei miðað við það að það er enn til fólk sem heldur því fram að jörðin sé flöt og að þyngdarafl sé hugarburður).

Skoðun er eitt það dýrmætasta og persónulegasta sem við eigum. Skoðun er allt það sem byrjar á „mér finnst...“,ég trúi....“ og „ég held....“. Það eru einmitt skoðanir sem gera okkur einstök og ólík hvert öðru. Það sem gerir okkur einmitt skynsöm, sniðug eða kjánaleg. Skoðanir okkar eru þar af leiðandi afskaplega viðkvæmar fyrir áliti annarra því með því að tjá skoðun erum við að gefa öðrum tækifæri á að gagnrýna okkur, hafna eða jafnvel útiloka með öllu ef þær samræmast ekki skoðunum annarra.

Ég hef oft „lent“ í því að þurfa að gefa afslátt af skoðunum mínum til að halda friðinn (þegar ég nenni ekki veseni). Það er hins vegar mun verra að viðurkenna að ég á það til í að fara í hinar öfgarnar - að leggja allt mitt í að sannfæra aðra um hversu miklu réttari mín skoðun er - og þá um leið hversu lakari skoðanir annarra eru, að sjálfsöðgu með það eina markmið að upphefja sjálfa mig á kostnað annarra. Í jafnvægi og á mínum góða stað átta ég mig á hversu yfirgengilegur hroki og vanvirðing felst í því að telja mig vita meira um hvaða skoðun hentar fólki betur heldur en það sjálft! Þetta gæti jafnvel flokkast undir  „skoðana-nauðgun“.

Skoðanaskipti eru hins vegar af hinu góða. Bestu samskiptin sem ég hef átt, er þar sem mér finnst ég nógu örugg til þess að setja fram skoðun eða pælingu án þess að þurfa að réttlæta mig eða verja. Mér finnst ég stundum ólýsanlega huguð að geta sett fram skoðun ef hún er ekki í takt við það sem öðrum finnst. Og stundum gæti ég hreinlega klappað af gleði þegar ég hitti fólk sem er opið fyrir nýjum hugmyndum og skoðunum og segir eitthvað í áttina við; “...Hmmm. Ég hef aldrei hugsað þetta svona, ég ætla að spá aðeins í þessu”. Þá finnst mér eins og ég hafi unnið í lottói. Þetta erþað sjaldgæfur eiginleiki.

Það er tvennt sem mig langar að gefa þér með þessum pistli. Hagnýtar upplýsingar sem tók mig svo óralangan tíma að læra:

  1. Samskipti snúast að mestu um að skiptast á skoðunum, hugmyndum og/eða upplýsingum. Maður þarf bara að passa sig á því að þó þú hafir skynsama skoðun sem hentar þér og þínu lífi, er hún ekki endilega sú besta fyrir alla aðra og kannski bara alls ekki sú besta yfirhöfuð. Það sem aðskilur skoðanaskipti og skoðana-nauðgun er viljinn til að leyfa fólki að ákveða sjálft hvað það gerir við upplýsingarnar sem gefnar voru.
  2. Þegar ég veit meira um hluti, aðstæður eða fólk þá stundum kemur það fyrir að ég þarf að skipta um skoðun. Þó það hefði tekið mig langan tíma að læra þetta, tók það mig samt enn lengri tíma að finna hugrekkið og leyfa mér þann munað. Það getur verið erfitt fyrir mann að hafa blásið skoðun út eins og risastórri sautjánda júní blöðru og ætla svo að skipta um skoðun. En það má! Og þetta er það sem hugrakka fólkið gerir; það gerir betur þegar það veit betur.

Mín ósk til þín er að þú finnir þitt hugrekki til að hafa þína eigin skoðun og tjá hana þó hún sé ekki í takt við það sem öðrum finnst. Að þú vitir að skoðun þín sé engu minna virði en skoðanir annarra, hvaðan svo sem úr þjóðfélagsstiganum fólkið með hina skoðunina er. Að þú takir því ekki persónulega þegar fólk hefur aðra skoðun en þú og að þú hafir hugrekki til að hlusta eftir nýjum hugmyndum og skoðunum og leyfir þér endrum og eins að skipta um skoðun.

Mín ósk út í daginn er að fá umburðarlyndi, þolinmæði og velvilja þrátt fyrir og kannski sérstaklega þegar skoðanir okkar eru ekki alveg samferða.

Hrefna Óskarsdóttir.
Hrefna Óskarsdóttir. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál