Neymar ræddi við Messi

Lionel Messi og Neymar náðu mjög vel saman þegar þeir …
Lionel Messi og Neymar náðu mjög vel saman þegar þeir léku með Barcelona. AFP

Neymar, sóknarmaður franska knattspyrnufélagsins PSG, hringdi í Lionel Messi, fyrirliða Barcelona, á dögunum og reyndi að telja hann á að ganga til liðs við franska félagið en það er ESPN sem greinir frá þessu.

Neymar hefur sjálfur verið orðaður við endurkomu til Barcelona undanfarna mánuði en eftir að Messi tjáði forráðamönnum félagsins að hann vildi fara frá Spáni verður að teljast nánast óhugsandi að hann muni snúa aftur til Spánar á næstu árum.

Flestir reikna með því að Messi fari til Mancehster City þar sem Pep Guardiola, hans fyrrverandi þjálfari hjá Barcelona, er við stjórnvölinn. Messi og Guardiola náðu afar vel saman hjá Barcelona á árunum 2008 til ársins 2014 og unnu samtals fjórtán titla saman.

Messi reynir nú að fá sig lausan undan samningi hjá Barcelona en hann telur sig geta farið frítt í sumar. Forráðamenn Barcelona eru því ekki sammála og reyna nú hvað þeir geta að fá hann til að vera áfram en til þess að borga upp samning Messis þurfa félög að punga út 700 milljónum evra fyrir 33 ára gamla Argentínumanninn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert