Kalt en við erum frá Íslandi

Taylor Ziemer í baráttunni í kvöld.
Taylor Ziemer í baráttunni í kvöld. Ljósmynd/UEFA

Bandaríski miðjumaðurinn Taylor Ziemer átti fínan leik fyrir Breiðablik er liðið gerði markalaust jafntefli á útivelli gegn Kharkiv í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu í fótbolta í kvöld. Hún var ekki fullkomlega sátt við frammistöðuna, þrátt fyrir ágæt úrslit.

„Við áttum erfitt með að halda ró og halda boltanum. Við vorum oft með meiri tíma en við áttuðum okkur á. Við reyndum að fara í erfiðar sendingar, en þegar við héldum boltanum betur litum við betur út og náðum að skapa einhver færi. Við vitum að við getum haldið boltanum betur og við verðum að sýna það,“ sagði hún á blaðamannafundi eftir leik.

Leikið var á Metalist-vellinum sem tekur 40.000 manns í sæti. Stærstur hluti vallarins var hinsvegar tómur. Ziemer hefur leikið fyrir framan fleiri áhorfendur, en ekki á eins góðum velli.

„Ég hef spilað með fleiri áhorfendum í háskóla en ekki á svona stórum og góðum velli. Það var mjög sérstakt að spila á vellinum, þótt hann hafi ekki verið fullur. Þetta var sérstakt. Það var kalt, en við erum frá Íslandi og við erum vön þessum aðstæðum.“

Hún var ágætlega sátt við eitt stig. „Við viljum alltaf fá þrjú stig en við erum ekki svekkt með eitt stig. Þetta var jafn leikur og eitt stig er sanngjarnt. Við verðum að spila betur til að fá þrjú stig. Vonandi spilum við betur í næsta leik og eigum skilið þrjú stig,“ sagði Ziemer.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert