Coca-Cola á Íslandi fjárfestir fyrir 1,2 milljarða

Kristín Vala Matthíasdóttir.
Kristín Vala Matthíasdóttir. Ljósmynd/Hari

Coca-Cola á Íslandi er þessa dagana að setja upp nýja hátækni framleiðslulínu fyrir plastflöskur í verksmiðju sinni í Reykjavík sem tekur við af yfir 40 ára gömlum tækjum.

Heildarfjárfestingin nemur um 1.200 milljónum króna og er ein sú stærsta sem lagt hefur verið í hjá fyrirtækinu.

„Með fjárfestingunni treystir fyrirtækið ekki bara framleiðslu sína hér á landi heldur eykur hún gæði hennar og skilar okkur umhverfisvænni vöru. Kolefnisspor okkar minnkar verulega því nýju tækin nota minni orku, minna vatn og minna af plasti,” segir Kristín Vala Matthíasdóttir, framkvæmdastjóri vörustjórnunarsviðs Coca-Cola á Íslandi, í tilkynningu.

Hlutfall innlendrar framleiðslu í vöruframboði Coca-Cola á Íslandi er um 60% en í verksmiðjum fyrirtækisins í Reykjavík og á Akureyri starfa yfir 100 manns.

„Uppsetning framleiðslulínunnar fer fram nú í febrúar og er stefnt að því að hefja framleiðslu með hinum nýja búnaði í byrjun mars næstkomandi. Á fjórða tug íslenskra verktaka hafa komið að verkefninu að undanförnu auk erlendra sérfræðinga og starfsmanna Coca-Cola á Íslandi. Verkefnið hefur verið 2 ár í undirbúningi enda um tæknilega flókið verkefni að ræða sem krefst töluverðar breytingar á húsnæði og skipulagningar til að koma í veg fyrir að vörur skorti á markað hér á landi á meðan skiptin eiga sér stað,” bætir Kristín Vala við.

„Þessi fjárfesting færir okkur áratugi fram í tímann hvað varðar vinnulag og eykur öryggi starfsfólk, sem skiptir okkur miklu máli. Hún tryggir einnig jafnari gæði og meiri stöðugleika í framleiðslu hér á landi,“ segir Kristín Vala en sem fyrr segir mun fyrirtækið ná að minnka plastnotkun, og þar með kolefnisfótspor sitt, með léttari flöskum úr 100% endurunnu plasti. „Fjárfestingin er stór áfangi í að ná markmiðum Net Zero 2040 áætlunar fyrirtækisins um minnkun gróðurhúsalofttegunda en í henni felst meðal annars að draga úr heildarlosun í allri aðfangakeðju fyrirtækisins um 30% fyrir árið 2030, miðað við grunnárið 2019, og að ná kolefnishlutleysi fyrir árið 2040,“ segir hún einnig í tilkynningunni.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK