Mistök sem ferðamenn gera í Miami

Borgarferðir | 6. febrúar 2020

Mistök sem ferðamenn gera í Miami

Miami er gríðarlega vinsæll áfangastaður þeirra sem heimsækja Bandaríkin. Það eru margar ástæður fyrir því, fallegar strandir, góður matur og heimsfrægt næturlíf. 

Mistök sem ferðamenn gera í Miami

Borgarferðir | 6. febrúar 2020

Ekki gera þessi mistök þegar þú ferð til Miami næst.
Ekki gera þessi mistök þegar þú ferð til Miami næst. Ljósmynd/Pexels

Miami er gríðarlega vinsæll áfangastaður þeirra sem heimsækja Bandaríkin. Það eru margar ástæður fyrir því, fallegar strandir, góður matur og heimsfrægt næturlíf. 

Miami er gríðarlega vinsæll áfangastaður þeirra sem heimsækja Bandaríkin. Það eru margar ástæður fyrir því, fallegar strandir, góður matur og heimsfrægt næturlíf. 

En þeir sem heimsækja Miami eiga það til að gera bara „ferðamanna“-hlutina sem er hægt að gera í borginni og yfirsést margir frábærir hlutir. 

Huffington Post fékk álit nokkurra heimamanna um hvaða mistök ferðamenn gera þegar þeir heimsækja Miami. 

Fara ekki frá sólbekkjunum á ströndinni 

Ströndin er að mati heimamanna ekki eini staðurinn sem þarf að heimsækja í Miami. Það er alltaf eitthvað í gangi í borginni, allt frá listavikum til tónlistarvikna. Í hverjum einasta mánuði ársins eru einhverskonar þemavikur, tónleikar eða önnur afþreying sem ferðamenn ættu að kynna sér. 

Gefa þjórfé tvisvar

Borgir Bandaríkjanna eru eins misjafnar og þær eru margar. Bloggarinn Ria Michelle bendir vinum sínum sem ekki eru kunnugir staðháttum að kíkja á kvittunina sína á veitingastöðum því oftar en ekki er þjórfé inni í heildarreikningnum. Það er því alveg óþarfi að bæta þjórfé við það.

Fara í ferðamannarútur

Ferðamannarútur eru þægileg leið til að kynna sér framandi borgir. Heimamenn í Miami segja hinsvegar að það sé algjört rugl að reyna að kynnast borginni í rútu. Best sé að ganga um borgina eða leigja sér hjól. Mikill fjöldi hjólaleiga er í borginni og auðvelt er að hjóla um borgina þar sem ekki margar brekkur leynast. 

Smakka ekki mat frá Kúbu

Menning Miami er að sjálfsögðu lituð af nágrannaeyjunni Kúbu. Bloggarinn Annie Vazquez segir að margir ferðamenn fari á mis við kúbverskan mat í heimsókn sinni. Hún mælir með staðnum Versailles fyrir kúbverskan mat og kaffi. 

Halda að allt snúist um næturklúbbana

Margir ferðamenn halda kannski að til að upplifa ekta djamm í Miami sé nauðsyn að fara á næturklúbb. Þar eru næturklúbbarnir LIVE og Story vinsælastir. Í borginni er hinsvegar fjöldinn allur af minni börum og pöbbum sem eru þess virði að heimsækja. Mælt er með Bodega, Mama Tried og Los Boy en einnig börum sem ber minna á eins og barinn á bak við Coyo Taco og Mini Bar sem er á Urbanica Hotel.

Skilja eftir rusl á ströndinni 

Listamaðurinn Danié Gomez-Ortigoza segir að ferðamenn haldi stundum að Miami-búum sé ekki annt um strendurnar sínar. Heimamönnum er hinsvegar mjög annt um strendurnar sínar og vilja ekki að ferðamenn skilji eftir rusl og drasl þar.

Skoða bara suðurströndina

Suðurströndin, eða South Beach, er gríðarlega vinsæll áfangastaður ferðamanna enda er mikið líf þar og mikið af afþreyingu í boði. Bloggarinn Dana Rozansky segir að önnur hverfi borgarinnar séu einnig mjög áhugaverð og þess virði að skoða. Hún mælir með að hoppa upp í leigubíl og skoða önnur hverfi á borð við Wynwood og Little Havana, þar sem þú gætir einmitt fengið þér kúbverskan mat. 

Taka bara strandföt með 

Sumir ferðamenn sem skella sér í sólina í Miami pakka oftar en ekki bara sundfötum, sandölum og stuttbuxum. Það er hinsvegar ekki hentugur fatnaður svona þegar þú þarft að skreppa í búðina eða í verslunarmiðstöðina. 

Sofa fram eftir degi

Einhverjir halda kannski að líf kvikni ekki í Miami fyrr en seinni partinn og að borgarbúar geri ekkert annað en að djamma til klukkan fimm á morgnana og sofa svo fram eftir degi. Þó svo að það sé góð og gild leið til að eyða fríinu sínu þá segir Gomez-Ortigoza að það sé fátt betra en að rölta meðfram ströndinni snemma á morgnana.

mbl.is