Góðar fréttir af úkraínska hernum

Jaroslav er hér aftast á myndinni ásamt nokkrum félögum sínum. …
Jaroslav er hér aftast á myndinni ásamt nokkrum félögum sínum. Hann keyrði vin sinn úr hernum til móður hans á dögunum. Ljósmynd/Jaroslav

Ótrúleg jákvæðni einkennir dagbókarfærslur Úkraínumanna sem senda mbl.is reglulega nokkrar línur um ástandið. Þrátt fyrir að í landinu geisi stríð halda þeir áfram að líta bjartsýnir á lífið. Sergei er ánægður með árangur Úkraínuhers og Jaroslav segist hafa fengið góðar fréttir beint úr herbúðunum.

Við höld­um áfram að heyra frá þeim Jaroslav í borg­inni Ódessu í suður­hluta lands­ins og Ser­gei í Lvív í vest­ur­hluta lands­ins en þeir deila með mbl.is reglu­leg­um dag­bók­ar­færsl­um sín­um um ástandið, upp­lif­un sína og hvað er efst í huga al­mennra borg­ara eft­ir að stríð hef­ur brot­ist út í eig­in landi.

Jaroslav í Odessu:

Þegar ég skrifaði til ykkar fyrst var ég að vona að ég myndi ekki skrifa lengur en í eina eða tvær vikur. En nú er liðinn heill mánuður. Borgin mín er enn í lagi. Margir góðir og gamlir vinir mínir eru í hernum eða í varnarsveitum. Í dag fór ég með gömlum vinum mínum frá herstöð hans og skutlaði honum til móður sinnar þar sem hann gisti í eina nótt. Í fyrramálið næ ég í hann aftur og hann fer aftur á svæði hersins. Hann var listamaður en í dag töluðum við um framtíð hans. Hann svaraði því strax til að líf hans upp frá þessu muni alltaf vera tengt öryggi landsins. Hann sagði mér líka góðar fréttir um herinn okkar en ég má ekki skrifa um það. Það var frábært að heyra frá honum og kollega hans sem voru þakklátir okkur þrátt fyrir að það séum við sem eigum að vera þakklát þeim, raunverulegu hetjunum okkar.

Sergei í Lvív:

Þrítugasti dagur stríðsins. Í dag hélt ég áfram að taka til í íbúðinni minni. Ég var ánægður með niðurstöðuna! Ég undirbjó líka nokkra rétti fyrir næstu daga. Á sunnudaginn þarf ég að fara til læknisins í greiningu og vona að allt verði í lagi og að ég muni bráðum geta varið meiri tíma utandyra. Fréttirnar í dag voru líka góðar: háttsettur hershöfðingi var drepinn. Með þessu áframhaldi náum við brátt til forseta Rússlands, haha.

Ég ákvað að hlusta á nokkrar plötur sem ég hef ekki snert í nokkur ár. Dagurinn var allt í allt nokkuð góður. Ég vona að næstu nokkrar vikur verði svipaðar. Ég verð að heimsækja lönd Evrópu eftir stríðið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert