Selenskí segir Rússa styðja Hamas

Selenskí segist viss um að Rússar styðji aðgerðir Hamas-samtakanna í …
Selenskí segist viss um að Rússar styðji aðgerðir Hamas-samtakanna í þeim tilgangi að framkalla óstöðugleika í alþjóðakerfinu. AFP/Juan Medina

Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu, segir Rússa styðja Hamas-samtökin í átökunum sem nú standa yfir milli samtakanna og Ísrael.

„Við erum viss um að Rússar styðji aðgerðir Hamas með einum eða öðrum hætti,“ er haft eftir Selenskí í umfjöllun AFP. 

Forsetinn segir yfirstandandi átök bera vitni um það að Rússar reyni að framkvæma aðgerðir sem framkalli óstöðugleika á alþjóðavettvangi.

Ekki megi gleyma Úkraínu

Þá sagðist hann hafa áhyggjur af því að alþjóðasamfélagið væri nú að hverfa frá stuðningi sínum við Úkraínu í stríðinu gegn Rússlandi vegna harmleiksins sem dunið hefur yfir Ísrael í kjölfar árása Hamas-samtakanna.

„Ég vil ekki gera neinn samanburð. Það er hræðilegt stríð í gangi í okkar landi. Í Ísrael hafa margir misst ástvini. Þessar hörmungar eru ólíkar en báðar stórfelldar,“ segir Selenskí og varar við því að ef athygli heimsins á Úkraínu dvíni muni það hafa afdrifaríkar afleiðingar. 

„Örlög Úkraínu ráðast af einingu heimsbyggðarinnar. Eining heimsins veltur mjög á einingu Bandaríkjanna,“ segir Selenskí loks og bætir við að gagnsókn Úkraínumanna sem hófst í júní haldi áfram á nokkrum vígstöðvum og taki framförum á þeim öllum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert