Kominn tími á annan Brennisteinsfjallaskjálfta

Horft yfir Brennisteinsfjöll.
Horft yfir Brennisteinsfjöll. mbl.is/RAX

Engar mælingar benda til þess að kvika sé að safnast saman eða brjóta sér leið undir Brennisteinsfjöllum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands. Kristín Jónsdóttir, deildarstjóri á Veðurstofunni, segir að kominn sé tími á annan Brennisteinsfjallaskjálfta en síðustu stóru skjálftar sem kenndir eru við fjöllin mældust um 6 að stærð og eru stærstu skjálftar sem hafa riðið yfir Reykjanesskagann.

Norðarlega á Hvalhnúksmisgenginu

„Um 20 skjálftar mældust síðustu helgi á milli Húsfells og Bláfjalla. Flestir rétt eftir hádegi á sunnudaginn, 28. janúar. Stærstu skjálftarnir mældust 3,1 kl. 05.28, á laugardag (27. janúar) og 2,9 kl. 12.32 á sunnudag, 28. janúar.

Ein tilkynning barst Veðurstofunni um að sá fyrri hefði fundist í Breiðholti. Tveir smáskjálftar mældust á svæðinu á mánudag, báðir undir 1 að stærð en ekki hafa mælst skjálftar á svæðinu síðan þá. Mögulegt er þó að virknin taki sig upp á ný,“ að því er segir í tilkynningunni.

Mælingar bendi ekki til kvikusöfnunar

Í tilkynningunni segir að skjálftarnir hafi átt upptök sín í Húsfellsbruna, norðarlega á misgengi sem hefur verið kallað Hvalhnúksmisgengið.

Hvalhnúksmisgengið er um 17 kílómetra langt norður-suðlægt sniðgengi og nær frá Hlíðarvatni í suðri.

Það er líklega ábyrgt fyrir stærstu skjálftum sem mælst hafa á Reykjanesskaganum, svokölluðum Brennisteinsfjallaskjálftum sem urðu árin 1929 og 1968 og voru um 6 að stærð.

Haft er eftir Kristínu Jónsdóttur, deildarstjóra á Veðurstofunni að engar mælingar bendi til þess að kvika sé að safnast saman undir Brennisteinsfjöllum.

„Skjálftavirknin sem mældist um helgina er ekki vegna kvikuhreyfinga eins sést hefur í tengslum við jarðhræringar við Fagradalsfjall og norðan Grindavíkur,“ segir Kristín.

Ættu að sjást merki um landris

Segir í tilkynningunni að skjálftarnir sem urðu á þessu svæði hafi orðið vegna landreksspennu sem hleðst upp þegar Norður-Ameríkuflekinn og Evrópuflekinn hreyfast framhjá hver öðrum.

Slík spenna losni reglulega í stærri skjálftum sem talið er að ríði yfir skagann á um 50 ára fresti. Má því segja að kominn sé tími á annan Brennisteinsfjallaskjálfta, óháð öðrum jarðhræringum.

Ef kvika væri að safnast þarna saman ætti að sjást merki um landris í gögnum Veðurstofunnar líkt og við höfum séð við Svartsengi og Fagradalsfjall.

Kristín segir mikilvægt að vera meðvituð um að skjálftar sem eigi upptök á Hvalhnúksmisgenginu séu stærstu skjálftar sem hafa riðið yfir Reykjanesskagann.

„Verði jarðskjálfti af stærð 6 á Hvalhnúksmisgenginu mun hann finnast vel um mest allt landið og sér í lagi vel á höfuðborgarsvæðinu en helsta hættan er tengd snörpum hreyfingum á innstokksmunum og mestu hreyfingar geta fært húsgögn úr stað.

Þó er vert að geta þess að hreyfingar verða ekki þess eðlis að byggingar laskist verulega, enda gera byggingarstaðlar ráð fyrir slíkum hreyfingum.“

Veðurstofan bendir á leiðbeiningar um varnir og viðbúnað vegna jarðskjálfta sem má finna á heimasíðu almannavarna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert