Skoraði tvívegis í góðum sigri í fyrsta leik

Daníel Tristan Guðjohnsen
Daníel Tristan Guðjohnsen Ljósmynd/Malmö

Daníel Tristan Guðjohnsen skoraði tvívegis í 3:0 sigri íslenska landsliðsins skipuðu leikmönnum 17 ára og yngri á Norður-Makedóníu í dag í fyrsta leik liðsins í undankeppni EM 2023.

Kjartan Már Kjartansson skoraði fyrsta mark leiksins um miðjan fyrri hálfleik og Daníel Tristan kom svo liðinu í 2:0 þegar um hálftími var liðinn af leiknum. Kjartan Már lagði þá upp þriðja og síðasta mark Íslands fyrir Daníel Tristan snemma í seinni hálfleik.

Daníel Tristan er fæddur árið 2006 og er yngsti sonur Eiðs Smára Guðjohnsen fyrrverandi landsliðsfyrirliða í knattspyrnu. Daní­el samdi við sænska fé­lagið Mal­mö í sum­ar, eft­ir að hafa verið í U16 ára liði Real Madrid á Spáni. Daní­el leik­ur með U19 ára liði Mal­mö og æfir með A-liðinu sömu­leiðis.

Ísland mætir Lúxemborg á föstudag og Frakklandi á mánudag, báðir leikir hefjast kl. 12 á íslenskum tíma en riðillinn er leikinn í Norður-Makedóníu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert