„Hinn raunverulegi prófsteinn á sambandið“

Heilsurækt | 6. janúar 2023

„Hinn raunverulegi prófsteinn á sambandið“

Það er óhætt að segja að líf Rafns Franklíns Hrafnssonar og Karenar Óskar Gylfadóttur hverfist um hreyfingu, en þau starfa einmitt bæði í líkamsræktarstöðinni Hreyfingu þar sem áhugamál þeirra og ástríða fyrir heilsu sameinast. Rafn og Karen eru þó ekki einungis samstarfsfélagar heldur líka par og eiga saman tvö börn. 

„Hinn raunverulegi prófsteinn á sambandið“

Heilsurækt | 6. janúar 2023

Þjálfararnir Rafn Franklín Hrafnsson og Karen Ósk Gylfadóttir ásamt börnunum …
Þjálfararnir Rafn Franklín Hrafnsson og Karen Ósk Gylfadóttir ásamt börnunum sínum tveimur. Ljósmynd/Soffía Rún Kristjánsdóttir

Það er óhætt að segja að líf Rafns Franklíns Hrafnssonar og Karenar Óskar Gylfadóttur hverfist um hreyfingu, en þau starfa einmitt bæði í líkamsræktarstöðinni Hreyfingu þar sem áhugamál þeirra og ástríða fyrir heilsu sameinast. Rafn og Karen eru þó ekki einungis samstarfsfélagar heldur líka par og eiga saman tvö börn. 

Það er óhætt að segja að líf Rafns Franklíns Hrafnssonar og Karenar Óskar Gylfadóttur hverfist um hreyfingu, en þau starfa einmitt bæði í líkamsræktarstöðinni Hreyfingu þar sem áhugamál þeirra og ástríða fyrir heilsu sameinast. Rafn og Karen eru þó ekki einungis samstarfsfélagar heldur líka par og eiga saman tvö börn. 

Rafn og Karen kynntust fyrir sjö árum og hafa síðan þá verið á sannkallaðri heilsuvegferð saman. „Við höfum gert stórtækar breytingar á lífsstílnum okkar frá því við kynntumst, en þó í jöfnum og smáum skrefum. Við teljum lítil skref ásamt þekkingu og reynslu vera bestu leiðina að árangri og heilsusamlegum lífsstíl,“ segir Karen. 

Karen hefur kennt hóptíma í Hreyfingu frá árinu 2011 á …
Karen hefur kennt hóptíma í Hreyfingu frá árinu 2011 á meðan Rafn hefur sinnt einkaþjálfun í stöðinni frá árinu 2014. Karen er menntaður viðskiptafræðingur og hefur samhliða þjálfuninni starfað sem sviðsstjóri markaðsmála og stafrænna lausna hjá Lyfju, en Rafn starfar einnig sem heilsuráðgjafi og er eigandi fyrirtækisins 360 heilsa.

Með mismunandi styrkleika

Hinn 10. janúar næstkomandi munu Karen og Rafn sameina krafta sína og byrja með sitt fyrsta sameiginlega námskeið sem ber heitið Heilsubyltingin. Þar munu þau nýta styrkleika sína og blanda saman þekkingu Rafns á heilsutengdum málefnum og ástríðu Karenar á hóptímakennslu auk þess að deila eigin reynslu og helstu þáttum sem tryggja heilsutengdan árangur. 

Þó heimilislíf Rafns og Karenar einkennist af pælingum, samtölum og tilraunum um heilsusamlegan lífsstíl mun námskeiðið vera fyrsta formlega verkefni þeirra saman. „Ætli þetta verði ekki hinn raunverulegi prófsteinn á sambandið?,“ segir Karen og hlær. 

„Við deilum sömu ástríðu og leggjum áherslu á reglulega hreyfingu og að halda lífsstíl okkar í jafnvægi. Við erum þó ólík og þar vegum við hvort annað vel upp. Rafni líður best við að grúska í bókum, lesa og uppgötva, á meðan ég nýt mín best í félagsskap þar sem ég fæ að deila þekkingu minni og reynslu,“ útskýrir Karen. 

„Við höfum verið á vegferðinni okkar saman, lært mikið og sankað að okkur fróðleik í leiðinni. Rafn er hafsjór fróðleiks og ég hef reynslu í markaðsmálum svo þetta verður vonandi skotheld blanda til að koma góðum upplýsingum og reynslu áleiðis á einfaldan og skýran hátt,“ bætir hún við. 

Leggja mikla áherslu á jafnvægi

Þegar kemur að heilsunni leggja Rafn og Karen áherslu á að vera meðvituð, taka upplýstar ákvarðanir og reyna eftir bestu getu að stuðla að jafnvægi. „Við veljum vel matinn sem er keyptur inn á heimilið, reynum að elda sem mest heima og frá grunni. Við kennum börnunum okkar hvað næringarríkur matur er og hvernig maður getur hjálpað kroppnum að líða vel með matnum sem maður borðar,“ segja Rafn og Karen. 

Á heimili Rafns og Karenar er góður svefn í forgrunni, en þau reyna að halda svefntímanum stöðugum til að ganga úr skugga um að þau fái átta klukkustunda svefn á hverri nóttu. „Við reynum að forgangsraða hreyfingu og veitum hvort öðru svigrúm til að geta hreyft okkur því við vitum að þannig erum við bæði betur stemmd, jafnt andlega sem líkamlega,“ segja þau.

Rafn og Karen njóta þess að hreyfa sig og hlúa …
Rafn og Karen njóta þess að hreyfa sig og hlúa að heilsunni saman.

Steita og tímaleysi geti orðið íþyngjandi

Þau viðurkenna þó að stundum geti reynst erfitt að púsla saman vinnu, heimili og hreyfingu, en þá leggja bæði Rafn og Karen mikla áherslu á að vera meðvituð um streitustig sitt til að hlúa sem best að heilsu sinni. 

„Eftir að hafa verið síðastliðinn áratug í gefandi stjórnendastarfi sem tekur þó tíma og krefst mikils af manni þá hefur minn mesti lærdómur verið þessi meðvitund, að átta mig á því hvenær streitan er mikil og hlúa þá sérstaklega að lífsstílnum með það í huga. Ég nota mikið öndunaræfingar en aðlaga einnig mataræði og hreyfingar að því hvernig staðan er hverju sinni,“ segir Karen.

„Þegar streitan og tímaleysið verður íþyngjandi þá hefur reynslan sýnt okkur hve nauðsynlegt það er að gefa sér tíma til að kúpla sig út með hreyfingu, hugleiðslu eða uppbyggilegum tíma fyrir sjálfan sig,“ segir Rafn. „Eins og sagt er í Zen-fræðunum: „Ef þú hefur ekki tíma til að hugleiða í klukkutíma á dag, hugleiddu þá í tvo tíma“,“ bætir hann við. 

Tíu mínútna hugleiðsla eða göngutúr með börnin getur verið lausnin …
Tíu mínútna hugleiðsla eða göngutúr með börnin getur verið lausnin þegar mikið er um að vera.

Heilbrigð efnaskipti grundvöllur góðrar heilsu

Rafn og Karen segja námskeiðið vera þeirra framlag í að fræða og hvetja landsmenn til að huga að heilsunni og vilja um leið vekja athygli á mikilvægi efnaskiptaheilsu. En hvað eru efnaskipti og af hverju eru þau svona mikilvæg?

„Heilbrigð efnaskipti er grundvöllur góðrar heilsu, en þetta er þó eitthvað sem fólk heyrir ekki mikið talað um. Í einföldu máli eru efnaskiptin það sem knýr áfram eðlilega líkamsstarfsemi í okkur öllum, en þau gerast innra með okkur og stjórnast gæði starfseminnar af heilbrigði okkar,“ segir Rafn.

Rafn segir lífsstíl okkar, þá sérstaklega mataræði, hreyfingu, svefn og streitustjórnun, vera grunnstoðir heilbrigðra efnaskipta. „Það mætti segja að þessir fjórir þættir séu hin heilaga hringrás sem halda heilsunni uppi. Með heilbrigðum lífsstílsvenjum tryggjum við að þessi starfsemi haldist í góðu standi sem gerir það að verkum að við erum orkumikil og geislum af heilbrigði,“ segir hann. 

„Til að ná árangri þurfa allir þessir þættir að vinna …
„Til að ná árangri þurfa allir þessir þættir að vinna saman og taka þarf á hverjum og einum þeirra til að hámarka heilsuna. Við verðum með sérstaka áherslu á hvern þessarra þátta, fræðslu og góð ráð á námskeiðinu sem þátttakendur munu geta tekið með sér og unnið áfram að eftir að námskeiðinu lýkur.“

Heilsutengdar venjur nátengdar efnaskiptaheilsu

„Eðli líkamans okkar er að sækjast í jafnvægi eða svokallað „homeostasis.“ Þegar við ögrum eða misbjóðum líkamanum röskum við eðlilegri líkamsstarfsemi og setjum hana úr jafnvægi. Líkaminn ræður yfirleitt við slíkt, en þegar það gerist ítrekað og án þess að líkaminn fái tækifæri til að jafna sig byrja vandamálin að gera vart við sig,“ segir Rafn.

Rafn segir blóðsykursstjórnun vera gott dæmi um þetta. „Þegar við borðum til lengdar matvæli sem raska sífellt blóðsykrinum okkar fer líkamsstarfsemin úr jafnvægi. Líkaminn á erfiðara með að losa sykurinn úr blóðinu og efnaskiptaheila okkar skerðist í kjölfarið. Út frá þessu byrja kvillar eins og bólguvandamál, verkir í liðum, orkuleysi og skert ónæmi að koma fram. Til lengdar getur þetta ástand þróast út í alvarlega sjúkdóma eins og hjarta- og æðasjúkdóma, sykursýki 2 og ákveðin krabbamein,“ segir hann. 

Heilsutengdar venjur eru því nátengdar efnaskiptaheilsu, en Rafn og Karen leggja mikið upp úr því að venjum sé breytt á heilbrigðan máta. „Oft gerum við okkur ekki grein fyrir ómeðvituðum venjum hjá okkur. Fyrsta skrefið er því að öðlast aukna meðvitund á hegðunarmynstrum okkar. Þaðan getum við byrjað að taka upplýstari ákvarðanir í átt að því sem við viljum og markmiðum okkar,“ segja þau.

Ekki vænlegt til árangurs að fara of geyst af stað

„Þegar kemur að venjum dettum við líka oft í gryfjuna að vilja taka út, fjarlægja eða hætta einhverjum venjum algjörlega. Venjur okkar eru þó oft svo innstimplaðar í kerfið okkar að það er hægara sagt en gert að ætla bara að henda þeim út sí svona. Því er oft skynsamlegri leið að skipta venjunum út fyrir eitthvað uppbyggilegra sem gefur okkur þó sambærilegan ávinning eða vellíðan og venjan sem var áður til staðar,“ bæta þau við. 

„Manneskja sem ákveður að hætta að drekka Coca-cola er til dæmis líklegri til að ná árangri með því að skipta sykraða gosdrykknum út fyrir sódavatn eða eitthvað sambærilegt í stað þess að fjarlægja það bara allt í einu.“

Sjálf hafa Rafn og Karen fundið þá leið sem þeim þykir vænlegust til árangurs þegar kemur að því að breyta venjum. „Okkur hefur þótt best að byrja á því að finna „betri valkosti“ eða „heilsusamlegri leiðir“ til að breyta þeim venjum sem eru ekki uppbyggilegar fyrir heilsuna. Einnig eru til sniðug tæki og tól sem hjálpa til við að auka meðvitund og breyta venjum,“ segja þau og nefna sem dæmi sílesandi blóðsykurmæla sem hafa notið aukinna vinsælda hér á landi undanfarið. 

Mikilvægt að njóta líka ferðalagsins

Rafn og Karen ætla því að byrja árið með krafti, en aðspurð segist Karen ekki setja sér áramótaheit heldur sé hún í grunninn markmiðadrifin og lærdómsfús manneskja. 

„Ég hef alltaf verið drifin áfram af vilja til að gera betur í dag en í gær og mæta nýjum áskorunum. Ég er því oft með markmið til skemmri tíma, bæði vinnutengd og persónuleg. Síðustu ár hef ég þó verið með þá venju að setja upp smá leiðarljós inn í nýtt ár,“ útskýrir Karen. 

„Í ár ætla ég að leggja áherslu á að rækta sambandið við mína nánustu, gefa mér tíma til að hlusta og vera til staðar. Heimilislífið er oft erilsamt þegar við erum bæði að sinna okkar starfi og áhugamálum auk þess að vera með tvö lítil börn, svo í ár ætla ég að leggja minni áherslu á útkomuna og einbeita mér að því að njóta ferðalagsins,“ bætir hún við. 

„Annað sem ég ætla að tileinka mér í ár sem ég hef gert núna í nokkur ár, eða allt frá því ég las bókina The Four Agreements eftir Don Miguel Ruiz, er að vanda sig í því hvernig hún talar. „Það sem við segjum skiptir svo miklu máli, bæði þegar kemur að börnunum okkar en líka hvernig við tölum um og við aðra. Þarna er enginn fullkominn, en mér finnst það góð áminning að vanda okkur,“ segir Karen. 

Í ár ætlar Karen að einbeita sér að því að …
Í ár ætlar Karen að einbeita sér að því að njóta ferðalagsins með fjölskyldu sinni.
mbl.is