Jón Bjarki: „Ákveðinn léttir“

Vextir á Íslandi | 8. mars 2024

Jón Bjarki: „Ákveðinn léttir“

„Í mínum huga er þetta ákveðinn léttir. Launaliðurinn er hóflegur fyrir þorra félagsmanna í þessum launþegahreyfingum, að minnsta kosti fyrir þá sem eru í meðallagi og þar fyrir ofan og hvað þá ef þetta verður speglað á aðra stóra launþegahópa.“

Jón Bjarki: „Ákveðinn léttir“

Vextir á Íslandi | 8. mars 2024

Frá undirritun kjarasamninga breiðfylkingar stéttarfélaga og Samtaka atvinnulífsins í Karphúsinu …
Frá undirritun kjarasamninga breiðfylkingar stéttarfélaga og Samtaka atvinnulífsins í Karphúsinu í gær. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Í mínum huga er þetta ákveðinn léttir. Launaliðurinn er hóflegur fyrir þorra félagsmanna í þessum launþegahreyfingum, að minnsta kosti fyrir þá sem eru í meðallagi og þar fyrir ofan og hvað þá ef þetta verður speglað á aðra stóra launþegahópa.“

„Í mínum huga er þetta ákveðinn léttir. Launaliðurinn er hóflegur fyrir þorra félagsmanna í þessum launþegahreyfingum, að minnsta kosti fyrir þá sem eru í meðallagi og þar fyrir ofan og hvað þá ef þetta verður speglað á aðra stóra launþegahópa.“

Þetta segir Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, við mbl.is þegar hann er inntur eftir viðbrögðum í kjölfar kjarasamnings breiðfylkingar stéttarfélaga og Samtaka atvinnulífsins.

Hóflegasta hækkunin í mörg ár

Hann segir þetta hóflegustu hækkunina sem sést hafi í allmörg ár í kjarasamningum og það sama gildi um hin skilyrðin sem hafi fylgt, bæði forsenduákvæðin um verðbólgu og um aðkomu hins opinbera.

„Þetta var í takti við það sem höfðum áður heyrt og það var ekkert sem sló mann öðruvísi heldur en von var á þar. Maður vissi ekki alveg hvort rauðu strikin yrðu með eða hvort miklar líkur væru á að þau myndu leiða til endurskoðunar.

Mér sýnist því, miðað til dæmis við okkar nýjustu verðbólguspár, að það séu góðar líkur á að þau muni ekki virkjast og að verðbólgan verði minni heldur en strikin teikna,“ segir Jón Bjarki.

Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka.
Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka. mbl.is/Hallur Már

Hefur vonandi fljót áhrif á væntingar

Hann segir að þótt prósentuhækkunin sé hófleg sé hún ekki óraunhæf sem einhvers konar viðmið fyrir aðra samninga á heildina litið.

„Ég veit auðvitað að aðrir hópar hafa fullt frelsi til að semja á sínum forsendum en það er ekki óraunhæft að leggja þetta til grundvallar. Þetta er hækkun upp á 3,5% fyrir þá tekjuhærri. Miðað við að verðbólga nái niður undir markmið myndi það væntanlega skila allflestum launþegum einhverri kaupmáttaraukningu á hverju ári og á sama tíma stuðla að hjöðnun verðbólgunnar og lækkandi vöxtum.“

Sérð þú fyrir þér að áhrifin komi fljótt í ljós varðandi verðbólguna?

„Ég held að það sé ástæða til hóflegrar bjartsýni um það. Núna stendur upp á opinbera aðila sem voru búnir að gefa til kynna að halda aftur af gjaldskrárhækkun. Það hefur vonandi fljótt áhrif á væntingar og gæti orðið til þess að fyrirtæki telji sig síður þurfa borð fyrir báru að ákveða verð á vöru og þjónustu fram í tímann og þurfi ekki snarhækkun á launakostnaði.“

Á von á því að Seðlabankinn taki þessu jákvætt

Jón Bjarki segir að hagkerfið sé að kólna hratt og þá sé minni hætta á einhverju umtalsverðu launaskriði þótt það verði eitthvert.

„Um leið og þessar væntingar snúast þá verður til jákvæð víxlverkun. Þegar fólk fer að búast við minni verðbólgu þá kallar það fram minni verðþrýsting.“

Hver verða viðbrögð Seðlabankans að þínu mati?

„Ég get ekki sagt til um það í bili hver ákvörðunin verður í mars en ég á von á að peningastefnunefnd Seðlabankans taki jákvætt í þessa samninga. Seðlabankastjóri hafði vissulega áhyggjur af mögulegum áhrifum kjarasamninganna á opinber fjármál en benti á að það væri ekki einhlítt að það ætti að leiða til meiri slaka. Ég held að þau hljóti að taka þessu frekar jákvætt.“

Jón Bjarki vill ekki kveða upp í bili hvort Seðlabankinn lækki vextina í mars en segir nýjustu spá Íslandsbanka gera ráð fyrir að vaxtalækkunarferli byrji í maí.

„Þetta hnikar líkunum í þá átt að það gæti orðið fyrr og að sama skapi að vextir lækki meira á þessu ári en ýmsir bjuggust við áður en samningar náðust.“

mbl.is