Sektaður fyrir að eyða myndskeiði

Úr upptöku öryggismyndavélar bensínstöðvarinnar í Kongsberg aðfaranótt 30. október í …
Úr upptöku öryggismyndavélar bensínstöðvarinnar í Kongsberg aðfaranótt 30. október í fyrra. Lögregluþjónn sætir nú ákæru í málinu og annar hefur hlotið sekt fyrir að eyða sönnunargögnum. Mynd/Úr öryggismyndavél

Einn lögreglumannanna, sem nú sæta rannsókn vegna þess sem virðist vera fólskuleg líkamsárás lögreglu við bensínstöð í Kongsberg í Noregi í október, hefur verið sektaður um 12.000 krónur, jafnvirði 156.000 íslenskra króna, fyrir að taka síma af einu vitnanna í málinu og eyða úr honum myndskeiði af átökum lögreglu við þá Kevin Simensen og Kristian Pablo Teigen.

Frá þessu greinir rannsóknardeild í innri málefnum lögreglunnar, Spesialenheten for politisaker, í fréttatilkynningu í dag. Vitnið sem í hlut á er Marius Stormo en á upptöku öryggismyndavélar bensínstöðvarinnar sést hvernig lögregluþjónar taka símann af Stormo með valdi og annar þeirra eyðir myndskeiðinu.

„Skjólstæðingur minn er vonsvikinn“

Framangreint myndskeið, úr öryggismyndavélinni, vakti gríðarlega athygli þegar Dagbladet birti það með frétt sinni af atburðinum nú í lok apríl en staðarblað í Kongsberg greindi frá því daginn eftir að tveir menn hefðu verið kærðir fyrir árás á lögregluþjóna. Nú hefur rannsóknardeildin, sem fer með ákæruvald í innri málum lögreglu, hins vegar gefið út ákæru á hendur lögreglumanninum sem mest hafði sig í frammi. Hér má sjá umrætt myndskeið:

Frétt Dagbladet

Sidra Bhatti er lögmaður mannanna þriggja sem lögreglan hafði afskipti af á bensínstöðinni. Kveður hann það ótækt að lögreglumaðurinn fái aðeins sekt fyrir að eyða þungavigtarsönnunargagni í málinu þegar aðrir hefðu, að hans sögn, hlotið þyngri refsingu fyrir spillingu sönnunargagna.

„Skjólstæðingur minn er vonsvikinn yfir því sem hann álítur mismunun gagnvart sér. Lögreglumaður ætti að sjálfsögðu að hljóta sömu viðurlög og aðrir hefðu hlotið og það er ekki það sem hér gerist,“ segir Bhatti í samtali við norska ríkisútvarpið NRK.

Camilla Lie, ákæruvaldsfulltrúi rannsóknardeildarinnar, kveður nefndina ekki tjá sig um málið uns hún hafi heyrt viðbrögð lögreglumannsins við sektinni.

John Christian Elden er verjandi lögreglumannsins sem hefur verið ákærður og lét Elden þau ummæli falla við fjölmiðla í þarsíðustu viku að myndskeiðið úr öryggismyndavélinni sýndi ekki alla atburðarásina og skjólstæðingi hans hefði verið ógnað.

NRK
Dagbladet
VG

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert