„Þetta var allt svo ótrúlega dapurlegt“

Polar Nanoq.
Polar Nanoq. mbl.is/Eggert

Skipverjum á togaranum Polar Nanoq leið ekki eins og grunuðum mönnum þegar þeir sigldu inn í Hafnarfjarðarhöfn eftir að skipið sneri aftur til Íslands í tengslum við rannsóknina á hvarfi Birnu Brjánsdóttur. Þetta segir Niels Jacob Heinesen, kokkur á togaranum, í samtali við færeyska ríkisútvarpið en hann er frá Færeyjum.

Heinesen var spurður að því hvernig það hafi verið að koma til Hafnarfjarðar þar sem fjöldi lögreglubíla hafi beðið eftir togaranum og sagði hann að það hefði verið furðuleg og fjarstæðukennd upplifun. Hann hefði margoft komið til Hafnarfjarðar á undanförnum sex árum og alltaf fundist eins og hann væri kominn heim þegar þangað væri komið.

„Þetta var allt svo ótrúlega dapurlegt,“ sagði hann. Skipverjar hafi ekki upplifað sig sem grunaða menn en aðstæður hafi verið hörmulegar og óraunverulegar.

Ríkisútvarpið greinir frá þessu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert