Andlát: Ólafur Walter Stefánsson

Ólafur Walter Stefánsson, fv. skrifstofustjóri dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, lést á Droplaugarstöðum 6. desember síðastliðinn, 91 árs að aldri.

Ólafur fæddist 20. júní 1932 í Reykjavík. Foreldrar hans voru Stefán G. Björnsson framkvæmdastjóri Sjóvár, f. 1906, d. 1990, og Sigríður Jónsdóttir húsmóðir, f. 1908, d. 2013. Bræður Ólafs eru Björn, búnaðarhagfræðingur og þjóðfélagsfræðingur, f. 1937, d. 31. maí síðastliðinn, og Jón Ragnar stærðfræðingur, f. 1941.

Ólafur ólst upp í Reykjavík og lauk stúdentsprófi frá Verzlunarskóla Íslands 1952. Hann tók lögfræðipróf frá Háskóla Íslands 1959 og hlaut réttindi sem héraðsdómslögmaður 1962.

Að loknu lögfræðiprófi hóf Ólafur störf í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, fyrst sem fulltrúi, síðar deildarstjóri og frá 1972 til starfsloka 2002 var hann skrifstofustjóri og jafnframt staðgengill ráðuneytisstjóra.

Ólafur átti sæti í ýmsum nefndum og ráðum á vegum ráðuneytisins. Má þar helst nefna formennsku framkvæmdanefndar Umferðarráðs, hann var í stjórn ráðsins og einnig varaformaður. Kom hann að Umferðarráði allt frá 1969 til 2002, er hann fór á eftirlaun. Ólafur var einnig fulltrúi ráðuneytisins í norrænum samstarfsnefndum, m.a. Norræna umferðaröryggisráðinu, og tók þátt í evrópsku löggjafarsamstarfi. Þá var hann formaður happdrættisráðs Happdrættis Háskóla Íslands 1973 til 2002 og átti um tíma sæti í kjaradeilunefnd.

Á námsárum sínum átti hann sæti í stjórn Orators og Stúdentafélags Reykjavíkur, tók sæti eitt tímabil í stjórn BHM og var formaður Lionsklúbbsins Baldurs 1986-1987.

Útför Ólafs fer fram frá Háteigskirkju miðvikudaginn 20. desember kl. 13.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert