Sáttafundur og verkfallsaðgerðir

Slökkviliðsmenn hafa boðað verkfallsaðgerðir á föstudaginn kemur. Það er í …
Slökkviliðsmenn hafa boðað verkfallsaðgerðir á föstudaginn kemur. Það er í annað skiptið sem þeir grípa til aðgerða í þessari lotu. mbl.is/Júlíus

Ríkissáttasemjari hefur boðað slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn og viðsemjendur þeirra til fundar klukkan 13.30 á morgun, fimmtudag. Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna (LSS) boðar annan hluta verkfallsaðgerða sinna á föstudaginn kemur.

Verkfallsaðgerðirnar hefjast klukkan 8.00 á föstudagsmorgun og munu standa til miðnættis. Slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn munu sinna öllum neyðartilvikum, þrátt fyrir boðaðar aðgerðir. 

Meðan á aðgerðum stendur munu slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn ekki sinna sjúkraflutningum í lofti, á láði og legi sem flokkast undir flutning sjúklinga á milli stofnana. 

Þá verður ekki sinnt svonefndri F3 þjónustu og starfsemi hjá slökkviliðum.  Þeir munu ekki sinna öðrum útköllum en neyðarútköllum vegna leka og þess háttar.

Varðstöðu á Akureyrarflugvelli verður ekki sinnt meðan á verkfallsaðgerðum stendur. 

Slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn hafa ekki borið boðtæki á frívakt frá því þeir gripu fyrst til aðgerða 23. júlí sl. Það fyrirkomulag mun gilda þar til deilan hefur verið leyst. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert