Lögsækja Facebook fyrir markaðsmisnotkun

Mark Zuckerberg, forstjóri Facebook, ber vitni fyrir dómsmálanefnd Bandaríkjaþings í …
Mark Zuckerberg, forstjóri Facebook, ber vitni fyrir dómsmálanefnd Bandaríkjaþings í liðnum mánuði. Málflutningur hans virðist ekki hafa verið mjög sannfærandi. AFP

Viðskiptaeftirlit bandarísku alríkisstjórnarinnar (FTC) og 46 ríki af hinum 50 ríkjum Bandaríkjanna hafa stefnt Facebook fyrir að hafa brotið samkeppnisreglur um árabil. Meðal dómkrafna er að netrisinn verði brotinn upp og fyrirtækið neytt til þess að selja frá sér þjónustur á borð við Instagram og WhatsApp. Málin voru höfðuð eftir lokun markaða í Bandaríkjunum nú í kvöld.

Viðskiptaeftirlitið heldur því fram í málsókn sinni að Facebook hafi ástundað „skipulega stefnu […] um að uppræta ógnir við einokun fyrirtækisins“ á margvíslegum sviðum og voru kaup þess á Instagram árið 2012 og WhatsApp árið 2014 meðal annara nefnd í því samhengi.

Lokað fyrir þjónustur sínar til keppinauta

Facebook er einnig sakað um að hafa af ásettu ráði lokað fyrir þjónustur sínar til keppinauta í hugbnúnaðargerð og félagsmiðlun.

Viðskiptaeftirlitið krefst þess að fá varanlegt lögbann fyrir alríkisdómi, sem myndi að líkindum leiða til þess að Facebook yrði gert að losa sig við Instagram og WhatsApp, og jafnframt leita leyfis stjórnvalda fyrir frekari uppkaupum á öðrum fyrirtækjum.

Samtímis höfðuðu 46 ríki og tvö önnur lögsagnarumdæmi í Bandaríkjunum mál gegn Facebook, sem ríkissaksóknari New York-ríkis leiðir, þar sem segir að uppkaupastefna Facebook á keppinautum og stefna gagnvart öðrum hugbúnaðarframleiðendum og félagsmiðlum sé ólögleg og „svipti almenna notendur ávinningi samkeppni og skerði persónuvernd og þjónustu í leiðinni.“

Önnur atlagan að netrisum vestanhafs í ár

Þessi samhæfða málshöfðun gegn Facebook er önnur atlagan að netrisum vestanhafs í ár, þar sem stjórnvöld og eftirlitsaðilar hins opinbera þjarma að tæknigeiranum. Bandaríkin lögðu fram kæru gegn Google í október síðastliðnum fyrir að nota „vef útilokunarsamninga“ til þess að halda mögulegum keppinautum á sviði netleitar í skefjum.

„Athafnir Facebook til þess að víggirða og viðhalda einokun sinni svipta neytendur ávinningi samkeppni,“ sagði Ian Conner, forstjóri samkeppnisskrifstofu FTC.

„Markmið okkar er að vinda ofan af samkeppnishindrunum Facebook og koma á samkeppni á ný, svo nýsköpun og frjáls samkeppni fái þrifist.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka