Google gert að greiða 2,4 milljarða evra í sekt

Sekt Google vegna samkeppnislagabrots var í dag staðfest fyrir dómi.
Sekt Google vegna samkeppnislagabrots var í dag staðfest fyrir dómi. AFP

Google hefur verið gert að greiða 2,4 milljarða evra í sekt vegna brots á samkeppnislögum, sem gera um 360 milljarða íslenskra króna.

Málið sem umræðir varðar verslunarþjónustu Google en leitarforritið á að hafa tekið sína eigin þjónustu fram yfir þjónustu keppinauta sinna í leitarniðurstöðum. Neytendasamtök Evrópu telja að misvísandi og ósanngjarnar aðferðir Google hafi komið sér illa fyrir milljónir evrópskra neytenda þar sem að komið var í veg fyrir að verðsamanburðarþjónusta annarra aðila en Google hafi nánast verið ósýnileg á leitarforritinu.

Kvartanir höfðu borist frá öðrum verðsamanburðarþjónustum sem urðu varar við að umferð minnkaði verulega vegna Google. Var í kjölfarið ráðist í sjö ára rannsókn sem leiddi af sér umrædda sekt.

Geta vísað málinu til Evrópudómstólsins

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins sektaði Google upprunalega árið 2017 og var sektin þá sú hæsta sem hefur verið gefin út af ESB. Tæknirisinn áfrýjaði í kjölfarið málinu en þurfti þó að lúta í lægra haldi í dag.

Ekki er öll von úti fyrir tæknirisann því enn stendur til boða að vísa málinu til Evrópudómstólsins. Talsmaður Google hefur sagt að fyrirtækið muni taka úrskurðinn í dag til skoðunar.

Sérfræðingar trúa því að ef sektinni verður ekki snúið við í áfrýjun gæti verið að auglýsingar er varða atvinnu, leiguhúsnæði og ferðalög, verði tekin til skoðunar næst af Evrópusambandinu.

Dómurinn gefur skýr skilaboð

„Dómurinn í dag gefur skýr skilaboð um að athæfi Google hafi verið ólöglegt og veitir dómurinn nauðsynlegan lagaskýrleika fyrir markaðinn,“ sagði í yfirlýsingu framkvæmdastjórnar ESB.

Í áfrýjuninni færðu Google og móðurfyrirtæki þess Alphabet, meðal annars rök fyrir því að Evrópusambandið færi rangt með staðreyndir. Dómstóllinn vísaði þeim rökum á bug og stendur sektin enn sem áður og hefur fyrirtækinu einnig verið gert að laga vandamálið.

„Aðferðir okkar hafa virkað vel síðustu þrjú ár og hafa skilað milljarða klikka fyrir yfir 700 samanburðar verslana þjónustur,“ sagði talsmaður Google.

Ekki eru þó allir sannfærðir um að lagfæringar Google hafi borið mikinn árangur og telja að ekki sé gætt að sanngirni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka