„Sameinuðu þjóðirnar eru veikar“

Kyslytsya hélt á lofti yfirlýsingum Rússa frá 2008 og frá …
Kyslytsya hélt á lofti yfirlýsingum Rússa frá 2008 og frá í gær, og bar þær saman. AFP

„Sameinuðu þjóðirnar eru veikar, það er staðreynd. Þær hafa orðið fyrir veirunni, sem Kreml hefur dreift. Munu þær deyja af völdum þessarar veiru? Það veltur á aðildarríkjunum,“ sagði Sergiy Kyslytsya, sendiherra Úkraínu hjá Sameinuðu þjóðunum, í ræðu sinni í öryggisráði SÞ í New York í nótt.

Kyslytsya fordæmdi meðal annars ákvörðun Pútíns Rússlandsforseta um að viðurkenna sjálfstæði Donetsk og Luhansk-héraðanna.

„Í dag hefur verið ráðist á öll aðildarríki Sameinuðu þjóðanna, af landinu sem tók sér sæti í öryggisráðinu árið 1991 og fór framhjá stofnsáttmála þess, af landinu sem hernam hluta af Georgíu árið 2008, landinu sem hernam hluta af Úkraínu árið 2014.“

Hvaða ríki væru vinir Úkraínu í raun

Sagði hann að pólitísk forysta Rússlands myndi bera alla ábyrgð á afleiðingum þeirra ákvarðanna sem teknar voru í gær, og að Rússar hefðu í raun sagt sig einhliða frá vopnahléssamkomulaginu sem kennt er við Minsk. Fordæmdi hann ákvörðun Rússa að senda fleiri hermenn til Donbass-héraðanna.

„Ríki sem hefur hellt olíu á átökin í átta ár, getur ekki gætt friðarins, eins og það heldur fram.“

Kyslytsya sagði að nú væri brýnt að sjá hvaða ríki væru vinir Úkraínu í raun, hverjir væru í liði með stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna, og hvaða ríki myndu áfram reyna að færa Rússa frá átökum með orðunum einum.

Ljósritunarvélin í Kreml virkar vel

„Sameinuðu þjóðirnar eru veikar, það er staðreynd. Þær hafa orðið fyrir veirunni, sem Kreml hefur dreift. Munu þær deyja af völdum þessarar veiru? Það veltur á aðildarríkjunum,“ sagði Kyslytsya eins og fyrr sagði.

„Í dag endurtóku Rússar, orð fyrir orð, yfirlýsingu sína um Georgíu frá árinu 2008,“ sagði Kyslytsya og hélt á ljósriti af yfirlýsingununum tveimur.

„Orð fyrir orð. Ljósritað og límt. Enginn frumleiki. Ljósritunarvélin í Kreml virkar mjög vel. Hvert ríkja Sameinuðu þjóðanna verður næst? Sú spurning er opin,“ sagði Kyslytsya í lok erindis síns.

Úkraínska þingkonan Alona Shkrum vakti einnig athygli á þessari afritun í gærkvöldi.

Skylt að þakka

Vasily Nebenzya, sendiherra Rússa hjá Sameinuðu þjóðunum var fundarstjóri, en Rússar fara með formennsku í ráðinu um þessar mundir.

Þakkaði hann Kyslytsya fyrir ræðu sína, en tók þó sérstaklega fram, að það gerði hann einungis þar sem honum væri það skylt sem fundarstjóra.

Vasily Nebenzya, til vinstri, stendur við hlið bandaríska sendiherrans Lindu …
Vasily Nebenzya, til vinstri, stendur við hlið bandaríska sendiherrans Lindu Thomas-Greenfield fyrir fundinn í gær. AFP

Ferð á sjúkrahús frekar en útför

Kyslytsya sagði á blaðamannafundi eftir fund ráðsins að hann hefði talið á leiðinni á fundinni, að hann væri á leið til jarðarfarar Sameinuðu þjóðanna. Að fundinum loknum fyndist honum hann frekar hafa heimsótt sjúkling á spítala. Þannig væri enn von fyrir þessi samtök þjóða.

Þá var hann þakklátur fyrir að meirihluti ráðsins hefði gefið lítið fyrir útskýringar Vasily Nebenzya, sendiherra Rússa, sem hefði viðurkennt það sjálfur í lok fundarins að meirihlutinn styddi málstað Úkraínu.

Þá ítrekaði Kyslytsya viðvörun sína, um að rússneska ljósritunarvélin væri greinilega góð. Þannig væri auðvelt fyrir fleiri lönd að fylgja í kjölfarið, sem skotmörk innrása frá Rússlandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert