Hitamet slegið í Norður-Atlantshafinu

Metið var slegið mun fyrr á árinu en við var …
Metið var slegið mun fyrr á árinu en við var búist. AFP

Yfirborðshiti sjávar í Norður-Atlantshafi hefur slegið met, samkvæmt bráðabirgðatölum sem bandaríska haf- og loftlagsstofnunin gaf út í dag. 

Stofnunin hefur fylgst með mælingum síðan snemma á níunda áratugnum. 

Xungang Yin, vísindamaður á umhverfissviði stofnunarinnar, greindi frá því við fréttaveituna AFP að meðalhitinn hefði náð 24,9 gráðum og þar með væri slegið metið. 

Metið slegið fyrr en við var búist

Þá segir hann metið koma einkum á óvart þar sem það komi svo snemma árs, en venjulega nær hitinn í Norður-Atlantshafinu hámarki í byrjun september. 

„Búist er við því að yfirborðshiti sjávar í Norður-Atlantshafi haldi áfram að aukast út ágústmánuð," segir vísindamaðurinn og bætir við að „mjög líklega“ verði metið slegið aftur. 

Nýja hitametið er meira en einni gráðu hlýrra en vísindamenn reiknuðu með að það yrði á þessu ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka