Segja Ísraela leggja til vopnahlé og lausn gísla

Hermenn horfa á rauða málningu sem var hellt á götuna …
Hermenn horfa á rauða málningu sem var hellt á götuna í borginni Jerúsalem, skammt frá heimili forsætisráðherra Ísraels, í mótmælaskyni vegna stöðu mála á Gasasvæðinu. AFP/Ahmad Gharabli

Ísraelar hafa lagt til við Hamas-samtökin, í gegnum samningamenn frá Katar og Egyptalandi, að hlé verði gert á bardögum á Gasasvæðinu í allt að tvo mánuði sem hluta af samningi um að frelsa alla gíslana sem eru í haldi á Gasasvæðinu.

Bandaríska fréttasíðan Axios greindi frá þessu í gær.

Í fréttinni er vitnað í ónefnda ísraelska embættismenn og sagt að samningurinn yrði að veruleika á mismunandi stigum. Fyrst með því að sleppa öllum konum og körlum úr haldi sem eru 60 ára og eldri og þeim sem þurfa á brýnni læknisaðstoð að halda.

Mótmælandi í borginni Jerúsalem sem vill að gíslar verði látnir …
Mótmælandi í borginni Jerúsalem sem vill að gíslar verði látnir lausir úr haldi hefur skrifað í lófa sína á hebresku: „Það er enginn tími til stefnu“. AFP/Ahmad Gharabli

Í framhaldinu yrði kvenkyns hermönnum sleppt úr haldi ásamt ungum karlmönnum sem eru almennir borgarar og karlkyns hermönnum. Lík látinna gísla yrðu einnig látin af hendi.

Embættismennirnir segja að samningurinn feli einnig í sér lausn palestínskra fanga sem eru í haldi í Ísrael. Fjöldi þeirra er ekki gefinn upp.

Í tillögunni er ekki gefið loforð um að binda enda á stríðið en sagt að Ísraelsher myndi draga sig að töluverðu leyti í hlé í stórum borgum á Gasasvæðinu. Íbúar gætu smám saman snúið aftur á svæði í norðri þar sem mikil eyðilegging hefur orðið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert