Andlát: Ágúst H. Guðmundsson

Ágúst Herbert Guðmundsson er látinn.
Ágúst Herbert Guðmundsson er látinn. Ljósmynd/Páll Jóhannesson

Athafnamaðurinn og körfuboltaþjálfarinn Ágúst H. Guðmundsson er látinn. Hann andaðist að kvöldi nýársdags í faðmi fjölskyldu sinnar, aðeins 53 ára.

Akureyri.net greinir frá þessu. Ágúst fæddist 26. ágúst 1967 á Patreksfirði. Hann var nýorðinn fimmtugur þegar hann greindist með MND-sjúkdóminn, sem dró hann til dauða.

Eiginkona Ágústs er Guðrún Gísladóttir, líkamsræktarfrömuður og stöðvarstjóri World Class á Akureyri. Þau eiga þau þrjú börn, Júlíus Orra, Ásgerði Jönu og Berglindi Evu.

Ágúst flutti ungur til Hafnarfjarðar og hóf að spila körfubolta með Haukum. Hann gekk síðan til liðs við Þór eftir að hann fluttist til Akureyrar 16 ára. Þar lék hann með meistaraflokki árum saman. Einnig þjálfaði hann meistaraflokk félagsins og yngri flokka.

Ágúst H. Guðmundsson ásamt syni sínum Júlíusi Orra.
Ágúst H. Guðmundsson ásamt syni sínum Júlíusi Orra. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Hjónin Guðrún og Ágúst stofnuðu líkamsræktarstöðina Átak á Akureyri 2003 og ráku allt til ársloka 2017, þegar World Class keypti stöðina. Síðan þá hefur Guðrún stýrt starfsemi fyrirtækisins á Akureyri.

Ágúst fór ungur til sjós en starfaði síðar hjá Ásprenti og Kassagerðinni. Hann stofnaði ásamt fleirum fyrirtækið Neptune í því skyni að gera út rannsóknarskip og þjónusta olíuiðnaðinn. Ágúst var framkvæmdastjóri fyrirtækisins á meðan heilsan leyfði.

Fyrir nokkrum árum fékk hann hugmynd að smávirkjun innst í Eyjafjarðarsveit og lét ekki deigan síga þrátt fyrir veikindin. Tjarnarvirkjun var formlega tekin í notkun í sumar og eru þau hjónin aðaleigendur fyrirtækisins.

Ágústs hefur einnig verið minnst á karfan.is og á vefsíðu Þórs. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert