Verðmætabjörgun fólks og fyrirtækja heldur áfram

Þeir einir fá að fara inn í Grindavík sem aðgerðastjórnin …
Þeir einir fá að fara inn í Grindavík sem aðgerðastjórnin í Reykjanesbæ hefur haft samband við. mbl.is/Eggert Johannesson

Búið er að hafa samband við þá íbúa Grindavíkur sem eiga þess kost að fara inn í íbúðarhús sín í dag.

Í tilkynningu frá lögreglustjóranum á Suðurnesjum er vakin athygli á því að þeir einir fá að fara inn í bæinn sem aðgerðastjórnin í Reykjanesbæ hefur haft samband við.

Í tilkynningunni segir:

„Aðkomuleið fyrir íbúa til verðmætabjörgunar í dag verður einungis um Grindavíkurveg frá Reykjanesbraut. Heimildin tekur til 90 fasteigna í Grindavík. Aðgerðin hefst kl. 9. Eftir kl. 14 í dag verður fyrirtækjum hleypt inn á svæðið. Ítrekað er að þeir einir fara inn í Grindavík sem aðgerðastjórnin í Reykjanesbæ hefur haft samband við símleiðis.  

Íbúar eru upplýstir um framkvæmdina og hvenær þeir eiga að mæta við gatnamót Grindavíkurvegar og Reykjanesbrautar. Íbúar verða fluttir með björgunarsveitarbifreiðum frá söfnunarstað utan Grindavíkur og frá heimilum í Grindavík til baka.

Áætlunin getur breyst án fyrirvara, en þetta verður skipulögð og stýrð aðgerð undir stjórn lögreglu.

Í dag eru viðbragðsaðilar að vinna inn á mesta hættusvæði Grindavíkur. Til að tryggja öryggi viðbragsaðila og íbúa verður fjölmiðlafólki ekki hleypt inn fyrir lokunarpósta í dag.   Undanþágur frá drónabanni eru veittar en afgreiðsla beiðna er í höndum ríkislögreglustjóra.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka