Kvikugeymslan við þolmörkin

Sérfræðingar okkar í jarðeðlisfræði og eldfjallafræði hafa ekki alltaf talað …
Sérfræðingar okkar í jarðeðlisfræði og eldfjallafræði hafa ekki alltaf talað í sömu átt þegar kemur að jarðhræringum enda oft erfitt að lesa í gögnin og breytingar tíðar. Samsett mynd/mbl.is/Eggert/Eyþór/Kristinn

Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands, telur að eldgos geti hafist að nýju við Sundhnúkagígaröðina á Reykjanesskaga á næstu dögum.

Hann bendir á að land hafi fallið einhverjum klukkustundum fyrir gosið í desember, en ekki sé komið að því í þetta skiptið. „Það er ekki farið að detta niður enn þá.“ Ef greinilegt svig komi fram á gps-mælingum, t.d. í Svartsengi, gæti það þýtt að gos sé í aðsigi.

Benedikt Gunnar Ófeigsson, jarðeðlisfræðingur og fagstjóri aflögunarmælinga hjá Veðurstofu Íslands, segir í samtali við Morgunblaðið að um tilviljun gæti hafa verið að ræða þegar land féll fyrir síðasta gos.

„Ég var ekki alveg á því að það væri hægt að túlka það þannig, þetta gæti hafa verið tilviljun. Það var bara ein stöð sem sýndi þetta. Það er náttúrulegt flökt í svona gögnum og stundum fellur það flökt akkúrat inn í eitthvert merki og þá lítur út fyrir að það sé eitthvað.

Það var enginn merkjanlegur fyrirvari fyrir síðasta gos nema þegar skjálftahrinan byrjaði og þá byrjaði líka aflögun sem við sáum mjög skýrt á rauntímaúrvinnslunni. Það var ekkert mikill aðdragandi. Það var alla vega ekkert skýrt sem hægt var að nota sem fyrirvara,“ segir Benedikt.

Að renna inn í einn atburðinn í viðbót

Þróuninni síðustu daga svipi til atburðarásarinnar fyrir eldgosið 18. desember að mati Þorvaldar. Landrisið í Svartsengi sé orðið meira en þá og landrisið við Eldvörpin að nálgast sömu hæð og síðast.

„Mér finnst þetta vera teikn um það að við erum í raun og veru að renna í einn atburðinn í viðbót,“ segir Þorvaldur. Alltaf sé þó möguleiki á að minna landris og skjálftavirkni þýði að „þetta sé að lognast út af“.

Hin sviðsmyndin, sem Þorvaldur telur líklegri, er að kvikugeymslan sé að fyllast og sé komin að þolmörkum. „Það er búið að teygja eins mikið á þakinu og veggjunum á geymslunni og hægt er. Þetta er eins og með teygju; ef þú strekkir og strekkir þá verður alltaf erfiðara að strekkja eftir því sem þú strekkir meira þar til hún brestur. Það gæti verið fyrirboðinn á því að við séum komin að þessum þolmörkum. Ef það er rétt þá gætum við fengið gos eða einhvern atburð í gang á næstu klukkutímunum eða kannski næstu dögum.“

Lítið gos en öflugt í byrjun

Þorvaldur telur að komi til eldgoss þá verði það með svipuðu sniði og það sem hófst 18. desember. Það gæti orðið lítið í heildina, en öflugt í byrjun. „Það hefur nú ekki svakalega mikið magn af kviku safnast fyrir í þessu grunna hólfi. Þetta er á bilinu 5-10 milljónir rúmmetra af kviku, sem telst ekki mikið. Þetta yrði kannski lítið og stutt gos en með sjónarspili í byrjun.“

Hvað varðar nákvæma staðsetningu á nýju gosi segir Þorvaldur erfitt að segja til um það. Langlíklegast sé þó að það gjósi á svipuðum slóðum og síðast. Ný kvika myndi þá renna um gosrásina sem myndaðist í desember frá kvikugeymslunni og á yfirborðið.

„Mér finnst líklegt að það myndi eiga auðveldast með að opna þann farveg aftur og kvika færi þá þar upp. Ef það er kvika í þessari gosrás þá hefur hún ekkert storknað af neinu viti. Ný kvika ætti þá auðvelt með að koma þar upp.“

Eins og Þorvaldur telur Benedikt að það styttist í næsta gos. „Það er frekar líklegt held ég,“ segir Benedikt.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka