43 létust í árekstri í Mexíkó

Hermenn standa við flak rútunnar eftir áreksturinn þar sem 43 …
Hermenn standa við flak rútunnar eftir áreksturinn þar sem 43 létust í dag. Reuters

Vörubíll skall saman við farþegarútu í Mexíkó í dag, með þeim afleiðingum að 43 létust og 20 slösuðust. 

Slysið átti sér stað í héraðinu Veracruz við Mexíkóflóa. Að sögn stjórnvalda bendir frumrannsókn á slysinu til þess að vagn vörubílsins hafi losnað og skollið á rútunni. Um borð í rútunni voru landbúnaðarverkamenn á leið til vinnu, að sögn mexíkóska dagblaðsins El Diario del Golfo. 

Tvöfalt fleiri deyja í umferðarslysum en í eiturlyfjastríðinu

Annar árekstur varð milli farþegarútu og vörubíls í héraðinu Jalisco í Mexíkó í dag. Þar lést einn og 36 slösuðust. Stutt er frá því mannskætt umferðarslys varð síðast í landinu því í byrjun apríl létust 14 starfsmenn sykurplantekru og 9 slösuðust, þegar rúta ók á tré og valt.

Árlega deyja um 24.000 manns í umferðarslysum í Mexíkó, samkvæmt tölfræði tryggingafyrirtækja þar í landi. Það er nánast tvöfaldur fjöldi þeirra sem deyja árlega vegna ofbeldisverka sem tengjast fíkniefnaheiminum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka