Páfinn gagnrýnir ferðalanga harðlega

Frans páfi.
Frans páfi. AFP

Frans páfi gagnrýndi fyrr í dag einstaklinga sem ferðast hafa milli landa til að forðast útgöngubönn í borgum víða um heim. Fjölmargir nýttu frídagana í kringum jólahátíðina til að ferðast og komast þannig hjá ströngum takmörkunum heima fyrir. 

Í hádegisblessun páfans fyrr í dag kvaðst hann hafa lesið fréttir þess efnis að fólk væri að fljúga milli landa til að komast hjá stífum reglum. Þá væru margir að nýta frídagana til að komast á staði þar sem reglur eru ekki eins strangar. 

Varð fyrir miklum vonbrigðum

„Þetta fólk hugsaði ekki um þá sem sitja fastir heima fyrir, um fjárhagsörðugleikana sem margir glíma við eða þá sem liggja nú veikir vegna veirunnar. Þau hugsuðu einungis um að komast í frí til að hafa gaman,“ sagði páfinn m.a. í ávarpinu.

Hann kvaðst hafa orðið fyrir vonbrigðum með hegðun fólks. „Þetta gerir mig leiðan. Við vitum ekki hvað bíður okkar árið 2021, en það sem við getum öll gert er að reyna að huga betur að náunganum. Það mun alltaf verða freistandi að hugsa einungis um sig sjálfan.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka