Skjálftar tengjast niðurdælingu

Hengilssvæðið.
Hengilssvæðið. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Jarðskjálftar sem urðu á Hengilssvæðinu í kvöld höfðu engin áhrif á rekstur virkjunar Orku náttúrunnar þar sem unnið er rafmagn og heitt vatn fyrir hitaveituna á höfuðborgarsvæðinu.

Jarðskjálfti 3,3 að stærð mæld­ist 2,1 kíló­metra norður af Hell­is­heiðar­virkj­un rétt rúm­lega sjö í kvöld. Skjálft­inn fannst vel í Hvera­gerði og á höfuðborg­ar­svæðinu.

Upptök skjálftanna voru við Húsmúla þar sem jarðhitavatni sem nýtt er í Hellisheiðarvirkjun hefur síðasta áratuginn verið dælt niður í jörðina aftur, að því er fram kemur í tilkynningu.

Fylgjast vel með stöðunni

Þar segir að vísindafólk ON muni fylgjast vel með þróun mála á svæðinu í kvöld og nótt og það verði í sambandi við vakt Veðurstofunnar.

Orkuvinnsla á Hengilssvæðinu á sér tæplega 30 ára sögu og mikið magn jarðhitavökva er tekið upp úr jarðhitakerfinu og dælt aftur niður eftir nýtingu þess í virkjunum. Ástæða þess að vatninu er dælt niður í jörðina aftur er að það eykur sjálfbærni jarðhitanýtingarinnar og dregur úr umhverfisáhrifum en það er einnig skilyrði í nýtingarleyfi Orkustofnunar. Þegar breytingar hafa verið gerðar á niðurdælingu hefur það valdið smáskjálftavirkni á svæðinu.

Engar slíkar breytingar voru í gangi þegar skjálftarnir urðu í kvöld. Engu að síður telur vísindafólk Orku náttúrunnar að skjálftarnir tengist þeim spennubreytingum sem langvarandi niðurdæling veldur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert