Fræga fólkið flutti, keypti og seldi 2020

Fasteignafrétt
Fasteignafrétt Samsett mynd

Fasteignamarkaðurinn blómstraði sem aldrei fyrr 2020. Fræga fólkið keypti og seldi og glæsihús gengu kaupum og sölum. Auðunn Blöndal fann raðhús undir ört stækkandi fjölskyldu, Brynhildur Guðjónsdóttir lét drauma rætast, Skúli Mogensen seldi eitt dýrasta hús Íslands og hógværasti maður viðskiptalífsins lét drauminn rætast og getur nú andað að sér hreinu sjávarlofti á náttsloppnum. 

Brynhildur Guðjónsdóttir Borgarleikhússtjóri.
Brynhildur Guðjónsdóttir Borgarleikhússtjóri. mbl.is/Árni Sæberg

Í janúar greindi Smartland frá því að Brynhildur Guðjónsdóttir hefði fest kaup á húsi Gunnars Smára Egilssonar og Öldu Lóu Leifsdóttur. Húsið stendur við Fáfnisnes í Skerjafirðinum og í kjölfarið fóru Brynhildur og unnusti hennar, Heimir Sverrisson, í miklar framkvæmdir. 

Hús Davíðs Helgasonar hefur verið mikið í fréttum á árinu …
Hús Davíðs Helgasonar hefur verið mikið í fréttum á árinu sem er að líða.

Fasteign við Hrólfsskálavör 2 á Seltjarnarnesi var mikið í fréttum á árinu en ein síðasta fréttin af því húsi var að Davíð Helgason milljarðamæringur hefði keypt það. Hann hefur gert það gott erlendis og virðist allt verða að gulli sem hann kemur nálægt. Það fer þó lítið fyrir honum og þeir sem til þekkja segja að þessi fasteignakaup hans hafi komið mikið á óvart og séu algerlega úr karakter. Hann ætti þó ekki að sjá eftir neinu enda fá heimili sem skarta bleiku baðherbergi, marmaraklæddu eldhúsi og þeim lúxus að geta andað að sér fersku sjávarlofti á náttsloppnum. 

Skúli Mo­gensen labbaði ekki alveg peniningalaus frá fasteignakaupunum.
Skúli Mo­gensen labbaði ekki alveg peniningalaus frá fasteignakaupunum.

Skúli Mogensen seldi Arion banka fasteignina við Hrólfsskálavör 2 eftir að hafa reynt að selja húsið sjálfur í gegnum sérstaka heimasíðu sem hann lét útbúa fyrir húsið. Um 400 milljónir voru áhvílandi á húsinu og fékk Skúli um 150 milljónir í sinn hlut eftir söluna. 

Páll Matthíasson forstjóri Landspítalans.
Páll Matthíasson forstjóri Landspítalans. mbl.is/Kristinn Magnússon

Páll Matthíasson forstjóri Landspítalans flutti á árinu sem er að líða ásamt eiginkonu sinni, Ólöfu Ragnheiði Björnsdóttur listamanni. Hjónin festu kaup á afar glæsilegu húsi á Seltjarnarnesi sem Smartland hafði fjallað ítarlega um þegar húsið fór á sölu fyrr á árinu. 

Liv Bergþórsdóttir.
Liv Bergþórsdóttir. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Svo var það Liv Bergþórsdóttir sem var gjafmild við eiginmann sinn og gaf honum sinn hlut í fasteign þeirra við Blikanes í Garðabæ. Húsið var á tímabili eitt dýrasta húsið í Garðabæ, teiknað af Pálmari Kristmundssyni arkitekt og var ekkert til sparað þegar húsið var byggt. Í haust var húsið mjög sýnilegt í sjónvarpsþáttunum Ráðherranum, sem sýndir voru á RÚV. 

Greta Salóme.
Greta Salóme.

Tónlistarmaðurinn Greta Salóme setti íbúð sína og unnustans, Elvars Þórs Karlssonar, á sölu. Íbúðin er sérlega glæsileg eins og lesendur Smartlands sáu þegar hún var gestur Heimilislífs. Þau enduðu þó á því að selja ekki íbúðina þótt áhuginn á henni hafi verð mikill. 

Skúli Mogensen var forstjóri WOW air.
Skúli Mogensen var forstjóri WOW air. mbl.is/RAX

Skúli Mogensen seldi ekki bara einbýlishús sitt á Seltjarnarnesi á árinu heldur seldi hann 72 íbúðir á einstöku verði eða á 14,9 milljónir stykkið. Þetta vakti mikla athygli enda sjaldgæft í nútímasamfélagi að fólk geti eignast þak yfir höfuðið fyrir slíka peningaupphæð. Það eru því örugglega einhverjir sem hugsa hlýlega til Skúla núna. 

Ævintýrahúsð við Skorradalsvatn býr yfir miklum sjarma.
Ævintýrahúsð við Skorradalsvatn býr yfir miklum sjarma.

Í sumar greindi Smartland frá því að einn minnsti og flottasti sumarbústaður landsins væri kominn á sölu. Það sem vakti athygli var hönnun hússins þar sem efniviður og útsýni spiluðu saman af mikilli list. Seinna kom í ljós að kaupandi hússins var enginn annar en Einar Örn sem eitt sinn varð heimsfrægur þegar hann var í hljómsveitinni Sykurmolunum með Björk Guðmundsdóttur. 

Magnús Ármann og Margrét Íris Baldursdóttir.
Magnús Ármann og Margrét Íris Baldursdóttir.

Magnús Ármann og Margrét Íris Baldursdóttir festu kaup á glæsilegu húsi í Akrahverfinu í Garðabæ. Húsið er eitt dýrasta húsið í Garðabæ og vöktu fasteignakaupin mikla athygli hérlendis. Nokkru áður hafði húsið verið sýnt hátt og lágt í sjónvarpsþætti nokkrum á Stöð 2 og fóru smartheitin ekki framhjá neinum lifandi áskrifanda. 

Auðunn Blöndal festi kaup á einstöku raðhúsi í Fossvogi.
Auðunn Blöndal festi kaup á einstöku raðhúsi í Fossvogi.

Sjónvarpsstjarnan Auðunn Blöndal stóð í stórræðum á árinu en hann setti íbúð sína í Fossvogi á sölu til þess að geta keypt raðhús í sama hverfi. Það mun ekki væsa um Auðun og Rakel, unnustu hans, í húsinu en parið á von á öðru barni sínu á næsta ári. Þótt húsið sé kannski ekkert vísitöluhús mun það rúma vel vísitölufjölskyldu Blöndals á nýju ári. 

Kristbjörg Jónasdóttir og Aron Einar Gunnarsson gengu í hjónaband 2017.
Kristbjörg Jónasdóttir og Aron Einar Gunnarsson gengu í hjónaband 2017. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hjónin Aron Einar Gunnarsson og Kristbjörg Jónasdóttir standa í stórræðum hérlendis þótt þau búi erlendis. Á árinu greindi Smartland frá því að þau væru að byggja sér stórt og mikið hús í Garðabæ og standa framkvæmdir yfir af fullum krafti. 

Sigrún Bender og Baldur Rafn Gylfason á brúðkaupdaginn sinn í …
Sigrún Bender og Baldur Rafn Gylfason á brúðkaupdaginn sinn í ágúst 2012.

Baldur Rafn Gylfason og Sigrún Bender, eigendur bpro-hárheildsölunnar, settu sitt huggulega hús á sölu á árinu sem er að líða. Húsið seldist á núll einni enda fátítt að hús á þessum stað komi á sölu. 

mbl.is