KÍ Klaksvík vann risasigur á ungverska stórveldinu Ferencváros, 3:0, í fyrstu umferð Meistaradeildar karla í knattspyrnu í Ungverjalandi í dag.
Fyrri leikur liðanna í Færeyjum í síðustu viku endaði með markalausu jafntefli.
KÍ Klaksvík mætir því Valgeiri Lunddal Friðrikssyni og liðsfélögum hans í Häcken í annarri umferð Meistaradeildarinnar í næstu viku, en á sama tíma mætir Breiðablik liði FC Köbenhavn.
Fyrir leik var lið Klaksvíkur talið mun ólíklegra en Ferencváros er Ungverjalandsmeistari sem og stórveldi í ungverska fótboltanum.
Öll þrjú mörk KÍ komu í fyrri hálfleik. Heimamaðurinn Árni Frederiksberg skoraði tvö þeirra og Fílabeinsstrendingurinn Luc Kassi það þriðja.
Þetta var magnaður árangur hjá Færeyingunum en líkt og Breiðablik, tryggði KÍ sér með þessu sæti í umspili um að komast í riðlakeppni vetrarins, í einhverri þriggja Evrópukeppnanna.