Grynnkar ekki á skjálftum

Skjálftavirkni á Reykjanesskaga frá miðnætti.
Skjálftavirkni á Reykjanesskaga frá miðnætti. Kort/Map.is

Ekki eru merki um að skjálftar séu að mælast ofar í jarðskorpunni við Grindavík. Skjálftar mælast nú á um 2-5 kílómetradýpi. 

Benedikt Gunnar Ófeigsson, sér­fræðing­ur Veður­stofu Íslands í jarðskorpu­hreyf­ing­um, segir að dregið hafi úr aflögunarmerkjum sem getur þýtt að hægst hafi á aflögun. 

Kerfið gæti verið að jafna sig

„Við sjáum hreyfingar innan sigdalsins norðan við Grindavík, en það er búið að hægjast á þeim. Það er hægt að túlka það sem svo að kerfið sé að jafna sig en það er einnig hægt að túlka það þannig að kvika sé að koma nær yfirborði en önnur gögn eru ekki að sýna það,“ segir Benedikt í samtali við mbl.is. 

Vísar hann þar til gervitunglamynda sem teknar voru í morgun. Veðurstofa Íslands vinnur nú að því að túlka upplýsingarnar og að teikna módel. Hann segir þú að við fyrstu sýn hafi litlar breytingar orðið. 

Eðlilegt að allt kerfið taki við sér

Þó nokkur skjálftavirkni hefur verið við Eldey frá miðnætti. Spurður út í þá skjálfta segir Benedikt að líklega sé um gikkskjálfta að ræða. Þeir gætu þó líka verið merki um kvikuhreyfingar á svæðinu.

„Það er mjög eðlilegt að allt kerfið eldstöðvakerfið bregðist svona við. Það eru gríðarlega stórar færslur sem ná langt út fyrir svæðið og þessir skjálftar og gliðnun hafa áhrif á öllum Reykjanesskaganum,“ segir Benedikt.

900 skjálftar frá miðnætti

Með gervitunglamyndunum er hægt að túlka upplýsingar um legu og dýpt kvikugangsins sem liggur frá Sundhnúkagígaröðinni og í gegnum Grindavík. 

Því er nýrra upplýsinga um kvikuganginn að vænta síðdegis eða í kvöld. 

Eins og fram kom í tilkynningu frá Veðurstofunni í hádeginu höfðu þá um 900 skjálftar mælst við Grindavík frá miðnætti. Hefur virknin verið stöðug síðan á laugardag. 

Skjálfta­virkn­in er dreifð um suður­hluta gangs­ins á milli Sund­hnúks og Grinda­vík­ur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert