Óvissa með framhaldið

Darri Freyr Atlason stýrði Valskonum á árunum 2017 til ársins …
Darri Freyr Atlason stýrði Valskonum á árunum 2017 til ársins 2020 en lét af störfum á dögunum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Körfuknattleiksþjálfarinn Darri Freyr Atlason hætti nokkuð óvænt með kvennalið Vals á dögunum. Darri tók við kvennaliðinu sumarið 2017 og undir hans stjórn vann liðið sinn fyrsta stóra titil þegar Valur varð bikarmeistari 2019 eftir 90:74-sigur gegn Stjörnunni í úrslitaleik í Laugardalshöll þann 16. febrúar 2019.

Valskonur fylgdu bikarmeistaratitlinum svo eftir með því að verða bæði deildar- og Íslandsmeistarar og liðið vann því þrefalt tímabilið 2018-19 undir stjórn Darra sem er einungis 25 ára gamall. Valskonur voru svo á góðri leið með að verja Íslandsmeistaratitil sinn þegar tímabilið var flautað af vegna kórónuveirunnar en liðið var krýnt deildarmeistari 2020.

Óvíst er hvað tekur við hjá þjálfaranum unga en hann hefur meðal annars verið orðaður við þjálfarastöðuna hjá uppeldisfélagi sínu KR. „Eins og staðan er núna þá er ákveðin óvissa yfir hlutunum hjá mér,“ sagði Darri í samtali við mbl.is í dag. „Ég hef átt í einhverjum viðræðum við nokkur karlalið en það er ekkert fast í hendi.

Ég vil taka við liði þar sem ég stýri sjálfur hlutunum og liði sem getur barist um meistaratitla. Ef rétta tilboðið kemur ekki þá gæti ég allt eins tekið mér frí frá þjálfun eða bara farið aftur í yngriflokkaþjálfun eins og áður,“ bætti körfuknattleiksþjálfarinn við í samtali við mbl.is í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert