Gleymdi líkinu í bílnum

Mollie Tibbets.
Mollie Tibbets. Skjáskot

Rúmlega tvítugur maður sem er ákærður fyrir að hafa myrt Mollie Tibbetts, tvítugan nema við háskólann í Iowa, segist hafa útilokað allt varðandi dauða hennar og að hann hafi gleymt því að hún væri í bílnum.

Cristhian Bahena Rivera, sem 24 ára Mexíkói, hefur játað að hafa elt Tibbetts þegar hún var úti að hlaupa fyrir fimm vikum. Að sögn lögreglu viðurkenndi hann við yfirheyrslur að hafa misst stjórn á skapi sínu þegar hún hótaði að hringja í neyðarlínuna en segist ekki muna hvað hafi síðan gerst.

Forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, segir að bandarísk innflytjendalög séu ástæðan fyrir dauða Tibbetts en að sögn verjanda Rivera var hann með löglegum hætti í Bandaríkjunum. 

Lík Tibbetts, sem hvarf sporlaust 18. júlí, fannst á þriðjudag eftir að Rivera hafði sagt þeim hvar líkið væri að finna.

Að sögn lögreglu er Rivera ólöglegur innflytjandi en hann hefur búið skammt frá bænum þar sem Tibbetts bjó, Brooklyn í Iowa, í að minnsta kosti fjögur ár. Aftur á móti segir vinnuveitandi Rivera að hann hafi staðist skoðun hvað varðar skjöl sem sýna að hann er löglegur innflytjandi líkt og verjandinn heldur fram. 

Trump sendi frá sér myndskeið á Twitter í gær þar sem hann ræðst harkalega á innflytjendalöggjöfina í Bandaríkjunum. 

„Einstaklingur kom með ólöglegum hætti frá Mexíkó og drap [Tibbetts] – við verðum að breyta innflytjendalöggjöf okkar, við verðum að breyta landamæralögum okkar,“ sagði Trump í myndskeiðinu. „Við erum með verstu lög í heimi,“ bætti hann við.

Samkvæmt ákærunni viðurkennir Rivera að hafa fylgst með Tibbetts á hlaupum en hún var með hund unnusta síns með sér. 

Á myndum sést bifreið Rivera keyra fram og til baka á svæðinu þar sem hún hvarf fyrir fimm vikum. Þegar lögregla yfirheyrði hann viðurkenndi Rivera að hafa elt hana á bílnum áður en hann fór út úr bílnum og fylgdi henni eftir á hlaupum. Hann hafi hins vegar fyllst örvæntingu þegar hún hótaði að hringja í lögreglu.

Hann hafi lokað fyrir minningar um hvað hafi gerst næst, en það geri hann oft ef hann reiðist mjög. En þegar hann var sestur undir stýri að nýju hafi hann komist aftur til sjálfs sín. Hann hafi tekið eftir því að hann var með heyrnartól í kjöltu sinni og áttað sig á að hann hafði komið Tibbetts fyrir í farangursrými bifreiðarinnar. Þegar hann kannaði skottið sá hann Tibbetts alblóðuga í íþróttafatnaði. Hann tók líkið og lagði það á kornakur þar skammt frá og reyndi að fela það undir korni. 

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert