Traust á lögreglu hrynur eftir líkamsárás

Úr upptöku öryggismyndavélar bensínstöðvarinnar í Kongsberg aðfaranótt 30. október í …
Úr upptöku öryggismyndavélar bensínstöðvarinnar í Kongsberg aðfaranótt 30. október í fyrra. Lögregluþjónn sætir nú ákæru í málinu og annar hefur hlotið sekt fyrir að eyða sönnunargögnum. Mynd/Úr öryggismyndavél

Tuttugu og þrjú prósent Norðmanna líta lögreglu landsins neikvæðari augum eftir líkamsárás lögreglumanna við bensínstöð í Kongsberg í október sem komst í hámæli þegar upptaka úr öryggismyndavél lak út á þessu ári. Daginn eftir atburðinn greindi staðarblað frá því að lögregla hefði kært mann fyrir árás á lögregluna.

Þetta er niðurstaða könnunar tölfræðifyrirtækisins Norstat sem enn fremur greinir frá því að innan framangreindra 23 prósenta játi 52 prósent að nýtt og verra álit þeirra á lögreglunni tengist atburðinum í Kongsberg í fyrrahaust. Tuttugu og þrjú prósentin gilda um Noreg allan en í Kongsberg treysta 42 prósent lögreglu síður nú en áður.

„Í smábæ á borð við þennan ristir atburður sem þessi djúpt,“ segir Hilde Pedersen, íbúi í Kongsberg, í samtali við norska ríkisútvarpið NRK og bætir því við að hún skilji það fullkomlega að bæjarbúar treysti lögreglunni síður eftir það sem á undan er gengið. Atburðurinn á bensínstöðinni er nefnilega ekki það eina.

Hleypti af haglabyssu á stöðinni

Í maí hleypti lögregluþjónn í Kongsberg óvart af haglabyssu sem kom inn á lögreglustöðina sem haldlagður varningur. Haglaskotið fór gegnum rúðu á stöðinni en engum varð meint af. Í mars greindu norskir fjölmiðlar frá því að fyrrverandi lögreglumaður í Kongsberg hefði stofnað öryggisfyrirtæki og ráðið starfandi lögreglumenn sem öryggisverði á tónleikum en starfandi lögreglumönnum er fullkomlega óheimilt að taka að sér störf fyrir einkarekin öryggisfyrirtæki samkvæmt norska ríkislögreglustjóranum.

Benedicte Bjørnland er sá sami ríkislögreglustjóri. Í samtali við NRK segir hún niðurstöður könnunar Norstat koma takmarkað á óvart.

Benedicte Bjørnland ríkislögreglustjóra undrar ekki að álit lögreglu hafi beðið …
Benedicte Bjørnland ríkislögreglustjóra undrar ekki að álit lögreglu hafi beðið hnekki eftir atburðinn í Kongsberg. Ljósmynd/Norska lögreglan

„Almenningur í Kongsberg og um allan Noreg hefur séð þetta myndband sem er nú gagn í dómsmáli. Slíkt er til þess fallið að laska traustið hvort tveggja á staðnum og um allt land,“ segir ríkislögreglustjóri en lögreglumaðurinn sem hafði sig mest í frammi á bensínstöðinni sætir nú ákæru eftirlitsdeildar í innri málefnum lögreglu. Annar, sem eyddi myndskeiði úr síma vitnis í málinu, hlaut sekt fyrir sinn hlut.

Í tilraun til að endurvinna traustið hefur norska lögreglan ýtt úr vör heildarrannsókn á valdbeitingu norskra lögreglumanna.

„Það er vinna sem sífellt ætti að vera í gangi milli lögreglu og almennings. Vonandi kemur að því að fólk komist á þá skoðun að í Kongsberg starfi góð og vingjarnleg lögregla eins og annars staðar,“ segir Bjørnland ríkislögreglustjóri að lokum.

NRK

NRKII (hleypti af haglabyssu)

NRKIII (ólöglega öryggisfyrirtækið)

mbl.is