Segir fréttamann RÚV hóta sér

Páll Vilhjálmsson
Páll Vilhjálmsson SteinarH

Bloggarinn Páll Vilhjálmsson segir á vefsvæði sínu að lögmaður fréttamanns Ríkisútvarpsins hafi sent sér bréf þar sem fram komi hótun um málsókn vegna bloggfærslu sem hann skrifaði. Í færslunni sakaði Páll fréttamanninn um að falsa ummæli forseta leiðtogaráðs Evrópusambandsins.

Í færslu sinni 16. júlí síðastliðinn skrifaði Páll: „Fréttamaður RÚV í Brussel falsar ummæli forseta leiðtogaráðs Evrópusambandsins, van Rompuy, til að þau falli betur að málstað ESB-sinna. Í hádegisfréttum RÚV segir van Rompuy að hann vonist til að ESB og Íslandi haldi góðu sambandi „either within or outside the accession process“. (3:31).

Orð van Rompuy er ekki hægt að þýða á annan veg en þann að val Íslands standi um að vera í aðlögunarferli eða ekki. En ESB-sinnaður fréttamaður RÚV þýðir orð forseta leiðtogaráðsins á þennan veg: „hvort sem aðildarviðræður halda áfram eða ekki“.“

Síðdegis í dag skrifaði Páll svo aðra færslu þar sem hann segist hafa fengið bréf frá viðkomandi fréttamanni. Í því segi: „Með færslu á vefsíðunni Tilfallandi athugasemdir þann 16. júlí undir fyrirsögninni: RÚV falsar ummæli forseta ESB berið þér hana þeim sökum að hún ljúgi vísvitandi að þjóðinni og stundi það sem þér nefnið fréttafölsun í því samhengi.“

Þá segi að ummæli Páls séu refsiverð og hann hafi 15 daga til að bregðast við bréfinu.

Páll segir það nýstárlegt að starfandi fréttamenn hóti þeim málsókn sem gagnrýni störf þeirra opinberlega. „Og að það skuli vera fréttamaður á ritstjórn RÚV sem reynir að þagga niður gagnrýni á fjölmiðil ríkisvaldsins er eiginlega svo langsótt að það tekur ekki tali.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert