Ísfirsk farþegaferja seld til Senegals

Ísafold við bryggju á Ísafirði.
Ísafold við bryggju á Ísafirði. mbl.is/BB

Farþegaferjan Ísafold, sem legið hefur við bryggju á Ísafirði í meira en tvö ár, hefur verið seld. Skrifað var undir kaupsamning í gær, en kaupandinn er franskur ríkisborgari og athafnamaður í ferðamannaiðnaði í Senegal. Söluverð skipsins er rúmar 18 milljónir króna. Vonir standa til að hægt verði að sigla skipinu frá Íslandi um miðjan mánuðinn.

Ísafold kom til Ísafjarðar í maí 2000 og gegndi farþegasiglingum um norðanverða Vestfirði um sumarið. Ári síðar var ljóst að siglingar myndu ekki halda áfram og stóð til að selja skipið. Í janúar á síðasta ári var fyrirtækið Ferjusiglingar ehf. úrskurðað gjaldþrota og leysti þá Jóna Kristín Kristinsdóttir, einn ábyrgðarmanna fyrirtækisins, Ísafold til sín. Að sögn hennar nemur tapið á viðskiptunum við fyrrverandi eigendur ferjunnar rúmum 10 milljónum króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert